Skemmtileg en pólitískt máttlaus sýning

Mynd:  / 

Skemmtileg en pólitískt máttlaus sýning

10.01.2019 - 16:32

Höfundar

Maríu Kristjánsdóttur gagnrýnanda þykir ekki mikið til Einræðisherrans koma, jólasýningar Þjóðleikhússins. Þótt þrautreyndur leikarahópurinn, með Sigurð Sigurjónsson, Þröst Leó Gunnarsson og Ilmi Kristjánsdóttur fremst í flokki, standi sig vel þá bæti leikgerðin litlu við þjóðfélagsgagnrýnina sem meira en 70 ára gömul kvikmynd Chaplins býr yfir.

María Kristjánsdóttir skrifar:

Chaplin skapaði hið kómíska meistarverk Einræðisherrann á fjórða áratug síðustu aldar þegar liðleskjur í efnahagslegum og pólitískum valdahópum Evrópu og Bandaríkjanna ýmist högnuðust á eða þorðu ekki að horfast í augu við fasismann sem breiddist út um Evrópu og náði hápunkti sínum þegar Hitler komst til valda í Þýskalandi. Það er því þarft og áhugavert verkefni að glíma við að leikgera fyrir svið þessa ádeilu hans á stríðsrekstur og ákall hans um að við rísum upp gegn fasisma og rasisma, enda margt í myndinni sem kallast á við okkar tíma. Danski leikstjórinn Nikolaj Cederholm tók það að sér í fyrra í Nörrebroleikhúsinu í Kaupmannahöfn við mikinn fögnuð danskra áhorfenda. Og nú færir hann okkur Íslendingum og Þjóðleikhúsinu þessa sýningu sem nokkurs konar danskan jólapakka, það er að segja: leikgerð sína, leiktjöld Kim Wetzel, búninga Linu Bech, slappstikk Kaspars Ravhöj og kóreógrafíu Önju Gaardbo og sjálfur leikstýrir hann.

Mynd:  / 
María Kristjánsdóttir ræddi við Bergstein Sigurðsson um Einræðisherrann í Menningunni á RÚV.

Cederholm heldur sig í leikgerðinni í aðalatriðum við atburðarás myndarinnar. En hún er í stuttu máli sú að rakari af gyðingaættum, óbreyttur hermaður í fyrri heimsstyrjöldinni, særist, lendir meðvitundarlaus á sjúkrahúsi þar sem hann dvelur í tuttugu ár en vaknar loks upp í landi sínu Tomaniu og er þá minnislaus. Allt hefur þá breyst í því landi, hrokafullur einræðisherra, Hynkel, er kominn til valda og vill ná heimsyfirráðum og sá heimur skal vera arískur án gyðinga. Framtíðin er myrk fyrir litla rakarann og vini hans, en þar sem svo vill til að hann og einræðisherrann eru ótrúlega líkir í útliti gerist það þegar allt er að fara á versta veg að villst er á einræðisherra og rakara.

Í allri sviðsetningu er Cederholm líka á slóðum svarthvítra kvikmynda frá tíma verksins. Leikmyndin er nánast eins og staðsett í upptökuveri nema hún hafi verið flutt í heilu lagi frá Danmörku og sé því of lítil fyrir stóra sviðið. Nokkurs konar kassi er miðsvæðis sem hægt er að velta á ýmsa lund. Og á einfaldan og oft kostulegan hátt má búa til úr honum skotgrafir, götumynd, rakarastofu, húsagarð, járnbrautarstöð, hallandi þök og hallarkynni og opinbera ræðupalla. Hægra megin á sviðinu er tónlistarmaðurinn og píanóleikarinn Karl Olgeirsson með píanó og alls kyns dót í kringum sig sem hann framleiðir úr hljóðin í sýningunni. Hann tengir atriði saman, skapar stemningar, hljómfall hreyfinga, tempó. Það þarf mikla einbeitingu, næma hlustun og fína tilfinningu til að vera í þessu hlutverki og það allt hefur Karl til að bera.

Mynd með færslu
 Mynd:

Kómíska leikaferðin er svo fengin að láni frá þöglu myndunum. Að nokkru leyti er sú slappstikkaðferð tekin frá Chaplin en er þó öllu ýktari og gróteskari en hin fágaða, fínlega aðferð meistarans. Í oftast stuttum vel útfærðum atriðum sýna leikararnir einkar samhæfðan leik og skýrt er fas þeirra og látbragð. Þeir syngja og dansa af mikilli list. Það hlýtur að vera ánægjulegt fyrir þá að glíma við þessa ströngu hlið kómíkur sem ekki berst oft inn á leiksvið landsins. Auk Sigurðar Sigurjónssonar leika átta leikarar fjölda hlutverka, eru ýmist gyðingar eða nasistar, búningaskipti eru því mörg og tíð. Okkar ástsæli Sigurður Sigurjónsson er eins og stiginn út úr kvikmyndinni í búningum og gervi Chaplins ýmist sem litli létt ruglaði gyðingurinn eða einræðisherrann Hynkel. Í leik vitnar hann oft skemmtilega í ýmislegt úr látæði Chaplins og óhjákvæmilega kallast ákveðin atriði á við atriði úr myndinni svo sem leikurinn með hnattlíkanið. En Sigurður er ekki að herma eftir Chaplin, hann skapar sína eigin útgáfu af hlutverkunum, gyðingur hans er sorgmæddari, einræðisherra hans myrkari.

Mynd með færslu
 Mynd:

Það er reyndar einn þáttur í ánægjunni af að horfa á sýninguna að bera hana saman við upprunalegu útgáfuna. Og þá verður að segjast að sviðsetning Cederholms og félaga er af meiri gæðum en leikgerð Cederholms. Sum atriði eru of löng og segja fátt svo sem fundur þeirra Hynkels (Hitlers) og Napolini (Mussolini). Það er alltof langur undirbúningur fararinnar til landamæra Austurríkis. En megingalli leikgerðar er hins vegar sá að Cederholm hefur sjálfur ekkert mikið fram að færa sem bætir við þjóðfélagsgagnrýnina í kvikmynd Chaplins nú sjötíu árum síðar. Einstaka tilvitnanir í danska öfgasinnaða pólitíkusa og atriði er minna á Trump eru harla lítilvæg, okkur tekst þó að skilja að í stað orðsins gyðingur mætti í dag setja múslimi. Gróteskur leikmátinn dregur úr stríðsádeilu upprunaverksins og hvörfin þegar Sigurður gengur að hætti Brechts út úr hlutverki rakarans á sviðinu og fram í sal – talar beint til okkar áhorfenda sem hann sjálfur – eru alltof óskýr, næstum óskiljanleg. Þann lokatexta hefur Cederholm endursamið. Þar sem hann hefur nær útrýmt stríðsádeilunni í upphafi sviðssetningarinnar flytur hann áhersluna af henni og mögnuðu lokaákalli Chaplins um að rísa upp og sameinast í baráttunni gegn stríðum og mannfyrirlitningu valdhafa, yfir á umhverfismál. Vissulega eru umhverfismál mikilvæg og brýnasta verkefni mannkynsins að taka á þeim. En þarna koma þau eins og skrattinn úr sauðarleggnum, máttlaust sett fram, nánast hugguleg. Eins og rakarinn sé farinn að tala tungum nútíma norrænna pólitíkusa. Chaplin hefði ekki verið ánægður með það. Hann vissi hvar skóinn kreppti.

Hins vegar, geti áhorfandi leitt hjá sér pólitískt máttleysi sýningarinnar, þá er vissulega hægt að skemmta sér eins og alltaf með Sigurði Sigurjónssyni, Þresti Leó Gunnnarssyni og Ilmi Kristjánsdóttur og svo auðvitað dást að Karli Olgeirsyni og alls kyns sprelli og fjöri hinna leikaranna.

Tengdar fréttir

Leiklist

Smitandi leikgleði í hreinræktuðum farsa

Leiklist

Einræðisherrann á alltaf erindi