Athugið þessi frétt er meira en 12 ára gömul.

Skemmdur strandveiðifiskur á erlenda markaði

11.08.2010 - 11:51
Mynd með færslu
 Mynd:
Hluti af þeim strandveiðifiski sem Brim hf hefur í sumar unnið fyrir markaði í Evrópu hefur reynst ónýt vara. Þetta segir forstjóri Brims og spyr hvort það sé virkilega vilji stjórnvalda að fara mörg ár aftur í tímann í gæðum og rekjanleika á íslenskum sjávarafurðum.

Strandveiðum lauk í gær og voru um 740 bátar í þessu kerfi í sumar. Vegna skerðingar á kvóta á yfirstandandi fiskveiðiári þurfti Brim hf. að róa á önnur mið til þess að halda uppi vinnslu í sumar í frystihúsi félagsins á Akureyri og verða þar með við óskum kaupenda á ferskum fiski á mörkuðum í Evrópu.

Í því skyni voru keypt á fjórða hundrað tonn af afla strandveiðibáta á fiskmörkuðum. Guðmundur Kristjánsson forstjóri Brims segir að þótt hluti af þessum fiski hafi litið þokkalega út hér heima, hafi annað komið í ljós þegar hann kom á borð neytenda ytra.

Guðmundur segir að kvartanir hafi borist vegna þessa og fyrirtækinu þyki miður að hafa selt ónýta vöru úr landi. En við þetta verði ekki ráðið nú og endurskoða þurfi afstöðu fyrirtækisins fyrir næsta sumar.

Ástæðan fyrir þessu segir Guðmundur vera að sumir af þeim bátum sem stunduðu strandveiðar kunni hreinlega ekki til verka og þeir hafi ekki kælt fiskinn nægilega vel um borð í bátunum. Þá sé það alvarlegt mál að ekki sé unnt að finna út hverjir séu sökudólgar í málinu, rekjanleiki í strandveiðikerfinu sé enginn vegna þess einfaldlega að aflinn fari í einn pott á fiskmörkuðunum.

Guðmundur segir að nú verði fulltrúar sjávarútvegs og stjórnvalda að ræða hvort þessar veiðar séu á réttri leið.