Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Skemmdarverk í Mývatnssveit

01.05.2013 - 23:38
Mynd með færslu
 Mynd:
Skemmdarverk hafa verið unnin í Grjótagjá og Hverfjalli í Mývatnssveit. Málað var með stórum stöfum orðið „CRATER" í Karlagjá Grjótagjár og utan í hólinn niðri í skál Hverfjalls.

Stafirnir sem málaðir voru á svæðið eru 17 metrar á lengd í Hverfjalli og um 90 sentimetrar á hæð í gjánni. Talið er að notuð hafi verið þrýstisprauta við verkið. Þá hefur þurft marga lítra af málningu í skemmdarverkið. Málið er í rannsókn hjá lögreglunni á Húsavík, en lögreglan staðfesti við fréttasstofu að upp hafi komist um spellvirkin síðastliðna helgi.

Grjótagjá er í umsjá heimamanna í Mývatnssveit en Hverfjall er á ábyrgð Umhverfsstofnunar samkvæmt friðlýsingarsamningi. Heimamenn vonast til að ná að smúla stafina af með háþrýstisprautu. Ekki er vitað hvað spellvirkjanum hefur gengið til.

Heimamenn óska ábendinga frá þeim sem kynnu að geta upplýst um málið. Jóhann Kristjánsson, einn landeigenda í Mývatnssveit, sagði í samtali við Akureyri vikublað að ef gerendur gefi sig fram fái þeir að njóta þeirra forréttinda að hjálpa til við að fjarlægja vegsummerki. Nestispakki gæti jafnvel fylgt.

Það var Akureyri vikublað sem fyrst greindi frá.