Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Skeggi misnotaði marga nemendur

08.03.2014 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Fjöldi fyrrverandi nemenda í Laugarnesskóla, sem voru á vistheimilum ríkisins á síðustu öld, segir að kennari í Lauganesskóla hafi níðst á þeim. Guðrún Ögmundsdóttir, tengiliður vistheimila ríkisins, segir að þolendur hafi upplifað mikla angist.

Björg Guðrún Gísladóttir segir frá því í nýútkominni bók að Skeggi Ásbjarnarson, einn þekktasti barnakennari í Reykjavík um miðbik síðustu aldar, hafi beitt nemendur sína, unga drengi kynferðisofbeldi. Hann var kennari í Laugarnesskóla í nærri fjörutíu ár og lést árið 1981. Hann hafi beitt drengina kynferðisofbeldi í kennslustundum og heima hjá sér.

Guðrún Ögmundsdóttir hefur rætt við fjölmarga fyrrverandi nemendur skólans sem einnig voru á vistheimilum ríkisins. Hún segir að fleiri en tíu þeirra hafi lýst því að Skeggi hafi brotið gegn þeim.

„Sem betur fer kom Björg til mín fyrir margt löngu og sagði mér frá sinni reynslu,“ segir Guðrún. „Það varð til þess að þegar ég svo hitti unga drengi sem höfðu verið í Laugarnesskóla gat ég leitt inn spurninguna hvort þetta hefði kannski líka hent þá og því miður reyndist það rétt og það eru allmargir.“

Guðrúnu grunar að í sumum tilfellum hafi misnotkunin staðið yfir alla skólagönguna. Hún segir að þeir sem hún ræddi við hafi lent í því sama og Björg segir frá í bók sinni, að kennarinn hafi leitað á þá í skriftarkennslu. Þá þurfi nemendurnir að sitja stífir og stjarfir og ekki hreyfa sig. „Ég hef ekki fengið þá sem lentu í heimili Skeggja, en aðallega gerðist þetta inni í skólastofunni og maður getur rétt ímyndað sér þá angist sem þessir drengir hafa þurft að kljást við.“

Hún segir að þolendurnir hafi átt það sameiginlegt að búa við félagsleg vandamál í æsku, svo sem fátækt, og átt undir högg að sækja. „Það er mjög mikilvægt að það yrði á einhvern hátt skoðað, en á mjög ábyrgan og hljóðlátan og góðan hátt. En aðalatriðið er að fólk getið unnið úr sínum málum.“