Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Skattur skráir raunverulega aflandseigendur

06.03.2018 - 09:14
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Aflandsheimurinn gengur út á það að fela eignarhald, segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri. Nú er verið að setja saman skrá hjá embætti ríkisskattstjóra um raunverulega eigendur aflandsfélaga. Hann segist telja að sprengjan, sem orðið hafi við lekann á Panamaskjölunum, verða til þess að bæta skattskil í heiminum.

Miklar breytingar hafa orðið hjá skattayfirvöldum eftir hrun og svo eftir að Panamaskjölunum var lekið. Aðgangur ríkisskattstjóra hér að upplýsingum var miklu takmarkaðri en í öðrum löndum fyrir hrun. Og það var ekki fyrr en 2010 sem ríkisskattstjóri fékk upplýsingar frá bönkunum hér um inneignir og skuldir. Í Danmörku sem dæmi hafði ríkisskattstjóri þar haft slíkan aðgang í 30 ár. Svo hafa síðustu ár bæst við skattaskjólsgögn og aðrar upplýsingar um eignir og viðskipti framteljenda í útlöndum:
„Og ég bind vonir við það að við náum frekari upplýsingum þaðan“, sagði Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri á Morgunvaktinni á Rás 1. Hann segir að falið eignarhald sé eitt alversta vandamál skattayfirvalda í heiminum: 
„Raunverulega byggist aflandsheimurinn upp á því að fela eignarhald. Það gengur út á það að menn eru að draga fram einhverja aðila inn í stjórnir sem eru ekki raunverulegir eigendur. Nú erum við að undirbúa það að koma hérna upp skrá um svokallaða 'beneficial owners' eða hina raunverulegu eigendur.“
Gerð þessarar skrár er á byrjunarstigi. Hann segist ekki frá því að meiri varfærni sé nú hjá skattgreiðendum við að telja fram en fyrir lekana á skattaskjólsgögnunum:  
„Þegar menn eru með eignir á tilteknum landsvæðum þá jafnvel fyrirverða þeir sig fyrir það. Það þykir ekki fínt. Ég held að þessi sprengja sem varð tveimur til þremur árum hún muni hjálpa til þess að bæta skattskil í heiminum.“
Álagning á einstaklinga verður birt í lok maí ef Alþingi samþykkir. En síðustu tvö ár hefur hún verið birt í lok júní en var áður í lok júlí. 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV