Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Skattur á ferðaþjónustu ekki hækkaður

08.06.2013 - 17:56
Mynd með færslu
 Mynd:
Nú á sjötta tímanum lagði ríkisstjórnin fram fjögur frumvörp, en þetta eru fyrstu frumvörp nýrrar ríkisstjórnar. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, lagði fram frumvarp sem kemur í veg fyrir að virðisaukaskattur á gistiþjónustu verði hækkaður eins og til stóð að yrði gert.

Skatturinn verður því áfram 7% en ekki hækkaður í 14% eins og orðið hefði.

Í athugasemdum við frumvarpið segir að tekjur ríkissjóðs lækki um rúmlega 500 milljónir króna frá áætlun fjárlaga fyrir árið 2013, og að árlegar tekjur verði einum og hálfum milljarði lægri en áætlanir gerðu ráð fyrir á næstu árum. Á móti því tekjutapi komi, ef að líkum lætur, aukin eftirspurn eftir ferðaþjónustu og viðbótartekjur.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, lagði fram frumvarp um breytingu á lögum um meðferð einkamála, en það miðar að því að dómsmál og önnur ágreiningsmál sem varða skuldir einstaklinga og fyrirtækja fái eins hraða meðferð fyrir dómstólum og mögulegt er. 

Þá lagði Sigurður Ingi Jóhannsson fram tvö frumvörp um stjórn fiskveiða. Frumvörpin voru líklega lögð fram í dag svo viðkomandi ráðherrar geti mælt fyrir þeim á þingfundi á þriðjudag.