Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Skattsvikamál Sigur Rósar þingfest í dag

03.04.2019 - 07:03
epa05481680 (L-R) Georg Holm, Orri Pall Durason and Jonsi Birgisson perform during the concert of the Icelandic post-rock band Sigur Ros at the 24th Sziget Festival, in Budapest, Hungary, 13 August 2016. The festival, which runs from 10 to 17 August, is
 Mynd: EPA - MTI
Mál íslensku hljómsveitarinnar Sigur Rósar verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Fjórir liðsmenn sveitarinnar ásamt endurskoðanda hennar eru ákærðir fyrir skattsvik upp á samtals 150 milljónir. Eignir liðsmanna sveitarinnar voru kyrrsettar við rannsókn málsins sem vakið hefur talsverða athygli erlendis. Enda Sigur Rós sú íslenska sveit sem náð hefur hvað lengst.

Allir liðsmenn Sigur Rósar nema Kjartan Sveinsson eru ákærðir fyrir meiriháttar skattalagabrot með því að hafa staðið skil á efnislega röngum skattaframtölum gjaldárin 2011 til og með 2014.  Kjartan er sagður hafa staðið skil á efnislega röngum skattaframtölum árin 2012 og 2014.

Þá er endurskoðandi hljómsveitarinnar ákærður ásamt Jóni Þór Birgissyni, söngvara Sigur Rósar, fyrir að hafa ekki staðið skil á skattframtölum söngvarans gjaldárin 2014 og 2015.  

Ákært er fyrir skattsvik upp á samtals 150 milljónir. Þremur liðsmönnum sveitarinnar, Georg Holm, Jón Þór og Orri Páll Dýrason, er gefið að sök að hafa komist undan greiðslu tekjuskatts og fjármagnsskatts. KJartan, sem hætti í Sigur Rós fyrir sex árum, er ákærður fyrir að hafa komist hjá því að greiða tekjuskatt.

Málið hefur vakið talsverða athygli erlendis og var meðal annars til umfjöllunar í Guardian, Pitchfork og á vef People. Bjarnfreður Ólafsson, lögmaður hjá Logos, sendi yfirlýsingu til fjölmiðla fyrir hönd sveitarinnar eftir að RÚV greindi frá ákærunum.

Þar var harmað að málið þyrfti að fara fyrir dóm.  „„Þeir hafi ávallt haft fullan ásetning til að standa í réttum skilum við skattyfirvöld og stóðu í þeirri trú að það hefði verið gert.“ Liðsmenn sveitarinnar hefðu talið að þessi mál væru í lagi enda væru þau í höndum fagmanna. Saksóknari yrði að færa sönnur fyrir því að liðsmenn sveitarinnar hefðu sjálfir gerst sekir um stórfellda vanrækslu á framtalsskyldu sinni. „Í ljósi málsatvika fæ ég ekki séð hvernig það verður hægt og þess vegna veldur það vonbrigðum að embætti héraðssaksóknara hafi tekið ákvörðun um ákærur á hendur þeim.“