Skattrannsóknarstjóri finnur ný íslensk nöfn

10.05.2016 - 13:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Skattrannsóknarstjóri hefur fundið ný nöfn Íslendinga, sem tengjast aflandsfélögum, í gagnagrunni sem Alþjóðasamtök rannsóknarblaðamanna opnuðu á netinu í gærkvöld. Nöfn hátt í 170 einstaklinga eru tengd Íslandi í grunninum, en þar að auki er hópur Íslendinga skráður undir öðrum ríkjum.

Nöfn úr ýmsum hópum íslenskra athafnamanna

Gagnagrunnurinn tekur aðeins til hluta þeirra félaga og einstaklinga sem koma fram í Panama-skjölunum. Þar eru engin frumgögn heldur aðeins grunnupplýsingar um félögin, á borð við hverjir sitja í stjórn og hverjir eiga þau. Talið er að í gagnagrunninum sé um fjórðungur þeirra íslensku nafna sem fundist hafa í skjölunum öllum. Þar eru mörg þekkt nöfn úr útrásinni fyrir hrun, einnig nöfn ýmissa manna úr hópi fjárfesta, forstjóra og stjórnarmanna í fyrirtækjum, kaupmanna, heildsala og annarra athafnamanna, lögmanna og útgerðarmanna.

170 Íslendingar og 40 íslensk félög

Alls finnast hátt í 170 íslensk nöfn einstaklinga þegar Íslandi er flett upp í grunninum, auk nafna um 40 íslenskra félaga. Þar fyrir utan hefur fréttastofa fundið nokkurn hóp Íslendinga sem er skráður í grunninum undir öðrum ríkjum. Til að mynda finnast hátt í 20 íslensk nöfn þegar leitað er undir Lúxemborg. Þónokkuð er um að nöfn séu vitlaust stafsett sem torveldar leit.

Yfirvöld skoða gagnagrunninn

Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri segir að embættið skoði nú gagnagrunninn. Í fljótu bragði virðist, líkt og embættið taldi, sem hann hafi að geyma upplýsingar um fleiri félög en skattayfirvöld hafi undir höndum. Engu að síður sýnist henni að embættið hafi meginþorra þessara upplýsinga og gagna hjá sér nú þegar.

Hún segir að einhver nöfn séu í gagnagrunninum sem íslensk skattayfirvöld hafi ekki séð áður.

„Og við eigum síðan eftir að meta það hvernig við því verði brugðist í framhaldinu, en að einhverju leyti eru þetta nýjar upplýsingar.“

Bryndís segir að upplýsingarnar gætu nýst skattayfirvöldum, þótt þau hafi ekki frekari gögn undir höndum. Eðli málsins samkvæmt sé þó miklu sterkara að hafa gögnin sjálf. Skattayfirvöld hafi aftur á móti ýmis úrræði til að afla frekari gagna og upplýsinga, svo langt sem það nái.

„Og það verður síðan metið í framhaldinu hvort þessar upplýsingar í heild sinni, eða í einstökum málum, gefa ástæðu til að bregðast við.“

 

 

 

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi