Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Skattgreiðslur námu 300 milljónum

11.05.2016 - 07:54
Mynd með færslu
 Mynd: Forsætisráðuneytið
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, segir í yfirlýsingu á vefsíðu sinni að skattgreiðslur hans og Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, eiginkonu hans, hafi numið tæpum 300 milljónum á tímabilinu 2007 til 2015. Hjónin greiddu 85 milljónir vegna auðlegðarskatts og 174 milljónir í fjármagnstekjuskatt á tímabilinu.

Þetta er meðal þess sem kemur fram á vefsíðu Sigmundar en hann birti upplýsingar um eignir og skattagreiðslur á vef sínum í morgun.  

Þar ítrekar Sigmundur að félagið Wintris hafi ekki verið í í atvinnustarfsemi og því hafi ekki verið skilað svokölluðum CFC-framtölum sem ætluð séu vegna eignarhalds á atvinnustarfsemi í lágskattaríkjum.

Sigmundur segir í yfirlýsingu sinni: „Sú varfærna leið að greiða skatta af öllum eignum, hverri fyrir sig, í stað þess að nýta félagið og líta á það sem fyrirtæki í atvinnurekstri hefur skilað sér í hærri skattgreiðslum til ríkisins en ef stuðst hefði verið atvinnurekstrar-/CFC-leiðina.“

Mynd: Kastljós / RÚV

Sigmundur sagði af sér sem forsætsiráðherra í byrjun síðasta mánaðar vegna umfjöllunar fjölmiðla um félagið Wintris sem var að finna í Panama-skjölunum. Meðal annars kom í ljós að félagið hafði lýst kröfum í þrotabú föllnu bankanna upp á hálfan milljarð.  

Ekkert kom fram sem benti til þess að farið hefði verið á svig við íslensk skattalög og Sigmundur segir á vef sínum í morgun að „skattayfirvöld hafi aldrei gert athugasemdir við með hvaða hætti talið er fram.“

Sigmundur sagði í viðtölum að hann væri reiðubúinn að birta skattaupplýsingar sínar ef aðrir forystumenn stjórnmálaflokkanna gerðu slíkt hið sama. Meðal þeirra sem hafa gert það má nefna Eygló Harðardóttur, Árna Pál Árnason, Katrínu Jakobsdóttur, Óttarr Proppé og Bjarna Benediktsson.  

Sigmundur Davíð segir í yfirlýsingu á vef sínum í morgun að ekki sé að sjá að félagar hans á Alþingi telji „ástæðu til að birta upplýsingar um fjármál maka sinna en örfáir hafa að undanförnu birt takmarkaðar upplýsingar um eigin fjármál umfram það sem hagsmunaskráning þingmanna gerir ráð fyrir.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV