Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Skattbyrði þeirra tekjuhæstu eykst

10.06.2012 - 18:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Skattbyrði þeirra tekjuhæstu hefur hækkað umtalsvert á undanförnum árum, samkvæmt tölum frá Ríkisskattstjóra. Hún var ríflega tvöfalt meiri 2010 en 2007. Tæplega sextíu fjölskyldur hafa þurft að selja eignir til að eiga fyrir auðlegðarskattinum.

Í grein Páls Kolbeins rekstrarhagfræðings hjá ríkisskattstjóra í tímaritinu Tíund kemur fram að flestir greiði minna í skatt nú en þeir gerðu árið 2007. Undantekningin á því er þó þeir sem eru efnameiri og er það afleiðing af því að margþrepa skattkerfi var tekið upp árið 2009. Árið 2007 greiddi það 1% fjölskyldna á Íslandi sem var með hæstu tekjurnar tæp 14% tekna sinn í skatt.

Árið 2010 var þetta hlutfall hins vegar komið í tæp 33%. Tekjuhæsta prósentið greiddi því 138% hærri skatt af tekjum sínum 2010 en árið 2007, sem sagt, skattbyrðin ríflega tvöfaldaðist. Þá kemur fram að ráðstöfunartekjur almennt lækkuðu um þriðjung á árunum 2007 til 10. Hjá langflestum var lækkunin þó ekki svo mikil, eða 13 til 17%. Ráðstöfunartekjur þeirra 10% þjóðarinnar sem höfðu hæstar tekjur lækkuðu hins vegar um rúm 54%, semsagt meira en helming.

Einnig kemur fram að svokallaður auðlegðarskattur, sem lagður var á eign umfram 90 milljónir hjá einstaklingum og 120 milljónir hjá hjónum, varð til þess að hjá 59 fjölskyldum dugðu tekjur ekki fyrir sköttum. Þær fjölskyldur þurftu því að selja eignir eða ganga á sparifé sitt til að greiða skattana og framfleyta sér. Þessar fjölskyldur áttu eignir upp á samtals ríflega 30 milljarða króna, en skulduðu tæpar 830 milljónir.