Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Skattaskjólsfólk fékk „krónuafslátt“

13.07.2017 - 19:43
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Sigurður Þórisson - RÚV
Tuttuguogeinn Íslendingur, sem nefndur er í Panamaskjölunum, flutti gjaldeyri til landsins í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans. Ekki er þar með sagt að fólkið sé til rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra. Þar eru nú tveir starfsmenn sérstaklega að fara yfir gögnin.

Bryndís Kristjánsdóttir skattrannsóknarstjóri segir að ekki hafi unnist tími til þess að fara sérstaklega yfir svör sem komu frá Seðlabanka við fyrirspurn skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra um það hverjir hafi tekið þátt í fjárfestingarleið Seðlabankans 2011 til 2015. 

Boðið var upp á leiðina til þess að fá gjaldeyri inn í landið gegn því að þeir, sem það gerðu, fengju krónur að 20 prósent lægra verði en aðrir. 
Þannig borguðu þeir í raun 24 milljónir fyrir íbúð sem seld var á 30 milljónir eða 800 milljónir fyrir hlutabréf sem voru eins milljarðs virði, svo dæmi sé tekið. 

Í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Björns Levís Gunnarssonar Pírata, sem birt var um mánaðamótin, voru samtals fluttir 206 milljarðar til landsins með fjárfestingarleiðinni, þar af 72 milljarðar frá nærri 800 Íslendingum að meðtöldum erlendum félögum í eigu Íslendinga. Krónuafslátturinn nam samtals 31 milljarði króna. 

Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að öllum íslenskum lögum hafi verið fylgt út í ystu æsar hvað varði fjárfestingarleiðina: 

„Fjárfestingarleiðin er ekkert öðru vísi en allt annað hvað svona varðar. Og meira að segja var hún miklu strangari. Það var reynt að hafa þetta eins strangt og hægt var.“

Hjá embætti skattrannsóknarstjóra er búið að samkeyra svörin frá Seðlabankanum og skattaskjólsgögnin. Það er listann, sem embætti skattrannsóknarstjóra hlutaðist til um að stjórnvöld keyptu, og gögn, sem fram komu í Panamalekanum. Þar kemur fram að 21 kemur fram á báðum stöðum. Bryndís ítrekar þó að þótt þetta séu sömu nöfnin sé ekki þar með sagt að þetta fólk sé til rannsóknar. 
Nú eru tveir starfsmenn embættisins, segir Bryndís, að athuga gögnin frá Seðlabankanum og afla frekari gagna ef svo ber undir. Hún vonast til þess að niðurstaða liggi fyrir á haustmánuðum. 

Meginþorri málanna hins vegar úr skattaskjólsgögnunum voru send ríkisskattstjóra. Í þeim voru 349 Íslendingar og 61 aflandsfélag með íslenska kennitölu. Nýjustu tölur um gang málanna eru síðan í maí. Skattrannsóknarstjóri hafði þá tekið 34 mál til rannsóknar og lokið rannsókn í þremur. Í einu var gerð krafa um sekt hjá yfirskattanefnd en tveimur var vísað til héraðssaksóknara.