Skattar sliga atvinnulífið

10.01.2012 - 12:54
Mynd með færslu
 Mynd:
Aukin skattbyrði sligar atvinnulífið í landinu. Byrði Flugfélags Íslands hefur ríflega tvöfaldast á þremur árum og þurrkað allan hagnað félagsins út. Þetta segir fjármálastjóri Icelandair Group.

Oddný Harðardóttir, fjármálaráðherra segir skattahækkanir nauðsynlegar til að mæta því áfalli sem ríkissjóður varð fyrir í hruninu til að tryggja öryggisnet sem sé siðmenntuðum þjóðum sæmandi.

Fjármálaráðherra sagði á Skattadegi Deloitte nú fyrir hádegi að ekki væri gert ráð fyrir frekari skattahækkunum á næstunni. Hún varði þær skattabreytingar sem ríkisstjórnin hefur ráðist í á síðustu misserum. Eftir hrunið hafi reynst nauðsynlegt að auka tekjur ríkissjóðs til að mæta auknu atvinnuleysi og nýjum útgjaldaliðum vegna hrunsins.

Oddný sagði að ekki væru margir góðir kostir fyrir stjórnvöld, hvorki hér á landi sem annars staðar, þegar þjóðargjaldþrot væri yfirvofandi. íslensk stjórnvöld hefðu brugðist rétt við með erfiðum ákvörðunum í formi blandaðrar leiðar niðurskurðar og tekjuöflunar. Aukin skattbyrði nú væri til að velta skuldum ríkissjóðs ekki í óhóflegum mæli yfir á komandi kynslóðir.

Bogi Nils Bogason, fjármálastjóri Icelandair Group hélt líka erindi á fundinum. Hann sagði tíðar skattahækkanir ríkisstjórnarinnar sliga atvinnulífið í landinu og benti á að skattbyrði Flugfélags Íslands hefði ríflega tvöfaldast á þremur árum. Opinber gjöld félagsins hafi hækkað úr 206 milljónum króna árið 2009 í 443 milljónir árið 2012. Á sama tíma hafi farþegum fækkað.

Bogi sagði að þetta væru ótrúlegar tölur. Engin leið gværi fyrir félagi að velta þessu á viðskiptavinu. Það væri verið að eyðileggja afkomu félagsins með skattabreytingum sem hefðu verið tilkynntar í síðustu viku og það þyrfti að fara í algöra uppstokkun á rekstri þess. þetta væru óásættanleg vinnubrögð, en vonandi færu þau að breytast. Fjármálaráðherra hefði talað um að það þyrfti að gera langtímaáætlanir í þessu sambandi og hann bæri ákveðnar vonir hvað það varðaði.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi