Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Skattar á fjármálafyrirtæki skila meiru

Mynd með færslu
 Mynd:
Aukin skattlagning á fjármálafyrirtæki skilar meiri tekjum en búist var við. Þetta segir fjármálaráðherra. Það sé þó áhorfsmál í hvað verði greitt niður með sköttunum. Hann segir að ríkið taki til varnar ef slitastjórn Glitnis höfðar mál vegna bankaskattsins.

„Ríkisstjórnin lagði skatta á fjármálafyrirtækin, afnám undanþágur fyrir slitabúin, en létti sköttum af vinnandi fólki. Þetta er ein stærsta stefnumarkandi breytingin við ríkisstjórnarskiptin og hún gerðist strax," sagði Bjarni í ræðu sinni á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins í morgun.

Hækkaður bankaskattur skilar ríkissjóði rúmum 35 milljörðum króna í ár og með fjársýsluskatti og segir Bjarni að fjármálastarfsemin að slitabúunum meðtöldum að skila meiri skatttekjum en gert var ráð fyrir. 

Upphaflega stóð til að nota 20 milljarða af bankaskattinum beint inn í skuldaniðurfellingu ríkisstjórnarinnar. Bjarni segir það þó áhorfsmál hvaða skattar séu notaðir til að greiða niður hvað.

„En við höfum tryggt fjármögnun þeirra aðgerða sem við ætlum að ráðast í til að létta skuldir af heimilunum í landinu, meðal annars með hækkun bankaskattsins," segir hann. 

Glitnir á að greiða 12 milljarða í skatt en slitastjórnin telur aðgerðina ólögmæta. Skattarnir verða greiddir með fyrirvara en Glitnir ætlar að höfða mál gegn ríkinu. 

„Þá gera þau það bara. Okkar niðurstaða er sú að ríkisvaldið hafi mjög víðtækar heimildir til að ákveða skattlagningu og hvaða skattstofnar skulu þar vera undir," segir Bjarni. „Í þessu tilviki erum við með afar lága skattprósentu, en já, við erum með breiðan skattstofn. Og þegar á allt er litið þá er það okkar niðurstaða að það sé engum vafa undirorpið að skatturinn heldur og við munum taka til varna ætli menn að reyna að hnekkja honum." 

[email protected]