Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Skattahækkanir hafa skapað óvissu

02.01.2012 - 18:12
Mynd með færslu
 Mynd:
Fjöldi skattahækkana og breytinga á síðustu þremur árum hafa skapað óvissu fyrir þá sem standi í rekstri segir framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands. Fólk og fyrirtæki haldi að sér höndum þegar komi að framtakssemi og fjárfestingu.

Ríflega hundrað skattahækkanir á fyrirtæki og einstaklinga hafa verið innleiddar síðustu þrjú ár samkvæmt upplýsingum frá Viðskiptaráði Íslands. Skattkerfið tók ekki miklum breytum um þessi áramót þótt þónokkur gjöld hafi hækkað og nýir skattar orðið til.

„Ég held að það hafi enginn í sjálfu sér verið ósammála um það að þyrfti að hækka skatta á alla mögulega vegu en það sem við erum búin að gera hérna núna er að hækka þá alltof mikið og flækja skattkerfið til muna og búa til óskilvirkni sem er algjörlega ástæðulaus að hafa á íslensku skattkerfi sem var í raun og veru bara gott,“ segir Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands. 

Finnur nefnir sem dæmi að hægt hefði verið að hækka neðra þrep virðisaukaskattsins til að auka tekjuöflun eins og AGS lagði til fyrr á árinu. Slíkar breytingar séu skýrar og gagnsæjar, afli mikilla tekna og hefðu getað komið í staðinn fyrir fjölda annarra breytinga.
Breytingarnar nú valdi hins vegar óvissu fyrir þá er standi í rekstri. Fólk og fyrirtæki haldi að sér höndum þegar komi að framtakssemi og fjárfestingu. „Ef við horfum á skattkerfisbreytingar og eðli þeirra breytinga sem hefur verið lagt í að undanförnu þá vinna þær í rauninni allar gegn nákvæmlega því sem við þurfum á að halda. Áhrifin eru í raun fyrirsjáanleg það er að segja að umsvif þau dragast frekar saman eða þenjast frekar hægar út en við vildum gjarnan.“