Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Skattahækkanir á nýju ári

02.01.2012 - 12:16
Mynd með færslu
 Mynd:
Ríflega hundrað skattahækkanir á fyrirtæki og einstaklinga hafa verið innleiddar síðustu þrjú ár samkvæmt útreikningum Viðskiptaráðs Íslands. Tóbaks- og áfengisgjald hækkaði um áramót og hefur nú hækkað um rúm fimmtíu prósent frá 2007.

Viðskiptaráð Íslands hefur tekið saman yfirlit yfir helstu skattbreytingar þetta árið sem tóku gildi um leið og landsmenn fögnuðu nýju ári.

Meðal nýrra skatta sem tóku gildi er sérstakur fjársýsluskattur á heildarlaun fjármálafyrirtækja og hið svokallaða gistináttagjald sem ferðaþjónustan og ríkisskattstjóri hafa nokkuð gagnrýnt. Þá verður olíugjald lagt á steinolíu líkt og annað eldsneyti.

Persónuafsláttur einstaklinga hækkar til samræmis við vísitölu neysluverðs og verður 46 þúsund krónur. Hann hefur hækkað um rúm fjörutíu og fimm prósent frá árinu 2007.

Tryggingargjald launa, sem felur meðal annars í sér atvinnutryggingagjald og gjald í ábyrgðarsjóð launa lækkar milli ára líkt og samið var um í nýjum kjarasamningum. Gjaldið verður rúm 7,7 prósent en hefur verið nær níu prósentum síðustu tvö ár. Þrátt fyrir lækkun milli ára hefur gjaldið hækkað verulega frá árinu 2007 eða um 45 prósent. 

Áfengi og tóbak hækkar nokkuð um áramót líkt og fyrri ár. En sígarettupakkinn fer nú í fyrsta skipti yfir þúsund krónur í smásölu. Áfengisgjald á bjór, létt vín og sterkt vín hækkar milli ára og hefur hækkað um rúm fimmtíu prósent á síðustu fimm árum. Sama á við um tóbaksgjald.

Þá hækkar bensíngjaldið. Félag íslenskra bifreiðaeigenda segir hækkunina þýða að eldsneytiskostnaður á meðal fjölskyldubílinn á ári, hækki um sex til tíu þúsund krónur.