Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Skattabreytingar komi best út fyrir tekjulága

20.02.2019 - 20:56
Mynd með færslu
 Mynd:
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir stöðuna í kjaraviðræðum vera flókna og þungt hljóð sé í verkalýðshreyfingunni. Þær tillögur sem hafi verið kynntar á undanförnum misserum hafi hins vegar verið afrakstur samtals ríkisstjórnar við aðila vinnumarkaðarins síðasta árið. Tillögur um breytingar á skattkerfinu muni koma betur fyrir tekjulága.

„Staðan er flókin og það hefur verið þungt hljóð í verkalýðshreyfingunni og ekki síst Eflingu í heilt ár þannig það kemur kannski ekki á óvart. Auðvitað vona ég það besta og það er samningafundur á morgun. Það liggur fyrir að við áttum fund með fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar í gær. Það skiptir máli að minna á það að við samningaborðið situr verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur og okkar hlutverk er meira að greiða fyrir þessum samningaviðræðum eins og höfum gert.“ sagði Katrín í Kastljósi kvöldsins. 

Hún segir tillögur um breytingar á skattkerfinu eina af mörgum tillögum sem hafi verið lagðar fram á síðustu vikum til þess að koma til móts við aðila vinnumarkaðarins. „Við þurfum að ð horfa á það sem við höfum verið að ræða því það sem við vorum að ræða í gær er allt afrakstur samtala okkar við aðila vinnumarkaðarins sem hafa staðið í heilt ár. Ég var hér fyrir nokkrum vikum að kynna tillögur átakshóps um húsnæðismál og það sem við vorum að kynna í gær er að við erum tilbúin að setja verulega fjármuni í átak í því að byggja upp félagslegt húsnæði, það er mál sem verkalýðshreyfingin hefur barist mikið fyrir og snýst um að setja inn stofnframlög í almenna íbúðakerfið og það er auðvitað risastórt lífskjaramál fyrir vinnandi fólk að lækka húsnæðiskostnað.“

Hraðari uppbygging og lengra fæðingarorlof

„Sömuleiðis erum við til í að fara inn með Reykjavíkurborg til að byggja hraðar upp í Keldnalandinu það er sömuleiðis mál sem getur skipt verulegu máli ekki síst hér á höfuðborgarsvæðinu. Í gær kynntum við líka fyrirætlanir okkar um að lengja fæðingarorlofið úr 9 mánuði í 12 mánuði, það er auðvitað risastórt hagsmunamál fyrir ungt fjölskyldufólk og það snýst ekki bara um það að skapa fólki betri lífskjör og aukinn tíma með sínum börnum sem er auðvitað mjög stórt umbótamál í samfélaginu heldur líka að draga úr kostnaði við daggæslu og annað slíkt sem hvílir þungt á ungum fjölskyldum.“ segir Katrín. 

Hún segist bera fulla virðingu fyrir því að verkalýðshreyfingin sé að berjast fyrir kjörum síns fólks. Enn eigi eftir að ræða fleiri tillögur, líkt og aukinn stuðning við fyrstu fasteignakaup fólks og vaxtarstig og verðtryggingu. „Ég horfi bara á hvað það er sem við erum að gera, mitt mat er það að þessar breytingar eru góðar, þær eru réttlátar, þær stuðla að auknum jöfnuði. Við erum að gera kerfið réttlátara, við erum að gera breytingar í jafnréttisátt. Þær koma betur fyrir tekjulága en tekjuháa, betur fyrir konur en karla sem eru auðvitað almennt tekjulægri. Við erum að reyna að koma til móts viðtekjulægstu hópana. Það er eðli prógressívra skattkerfa að það sem er gert fyrir neðsta hópinn það skilar sér upp skalann. Hlutfallslega er lækkunin mest fyrir þá sem eru í neðsta þrepi og svo fjarar hún út eftir því sem ofar kemur þegar við horfum á það hlutfallslega.“

Enn margt sem eigi eftir að ræða 

„Ég held að það sé til mjög mikils að vinna fyrir alla aðila að ná farsælli lausn á þessum málum. Eins og ég sagði, það er margt sem við erum ennþá eftir að eiga samtal við verkalýðshreyfinguna, þar nefni ég vaxtarstig og verðtryggingu, ég nefni stuðning við fyrstu kaup. Allt þetta sem við höfum lagt fram er eitthvað sem við viljum gera af því við viljum byggja upp samfélagslega innviði og við viljum bæta lífskjör almennings í landinu og allt sem við höfum kynnt mun gera það.“

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV