Skandall kynþáttahyggju skekur Dove

Mynd með færslu
 Mynd: Dove - Youtube

Skandall kynþáttahyggju skekur Dove

11.10.2017 - 16:06

Höfundar

Nígerísk-Breska fyrirsætan Lola Oguynemi vísar gagnrýnisröddum á bug sem beinast að því að auglýsingaherferð snyrtivörufyrirtækisins Dove byggi á kynþáttahyggju. Í auglýsingunni sést Oguynemi, sem er dökk á hörund, klæða sig úr húðlitnum, þannig að kona ljósari á hörund birtist í hennar stað.

Fyrirsætan hefur sömuleiðis sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún ver auglýsinguna og segir að auglýsingin sé langt í frá lítillækkandi fyrir þeldökka. Auglýsingin sem um ræðir er þriggja sekúndna löng og birtist á Facebook síðu fyrirtækisins. Sýnir hún Oguynemi, dökka á hörund, klæða sig úr bol þegar birtist kona ljósari á hörund, sem síðan klæðir sig úr bol þannig að asísk kona birtist.

Gagnrýnendur á samfélagsmiðlunum Twitter og Facebook bentu á að auglýsingin kallaðist á við sápuauglýsingar frá 19. öld sem sýndu þeldökka þvo sér með sápu til að verða ljós á hörund.

Segir framsetninguna villandi

Ougynemi bendir á í samtali við BBC að framsetningin á samfélagsmiðlum hafi verið villandi, þar sem aðeins brot úr auglýsingunni hafi verið birt. Kastljósinu hafi verið beint að henni og hvítu konunni, en asísku konunni hafi verið sleppt, og þannig hafi málið verið tekið úr samhengi. Hún tók einnig fram að 30 sekúndna sjónvarpsauglýsing sýndi fleiri ramma auk slagorða sem tækju af allan vafa um vel meinandi innihald auglýsingarinnar, sem ætlað var að undirstrika þá hugmynd að allar konur verðskulduðu hágæða húðvörur, óháð útliti eða uppruna. Dove sendi frá sér yfirlýsingu í fyrradag þar sem fyrirtækið baðst afsökunar á vanhugsaðri framsetningu á efninu.

Ekki fyrsta feilsporið hjá Dove

Svipað mál kom upp hjá Dove árið 2011 þegar fyrirtækið sendi frá sér auglýsingu sem sýndi þrjár konur sitja hlið við hlið fyrir framan ljósmynd af annarsvegar þurri og sprunginni húð og hinsvegar mjúkri og unglegri húð í einskonar „fyrir-eftir“ framsetningu. Þar var þeldökk kona sett við myndina af sprungnu húðinni og ljósari kona var fulltrúi „eftir“-myndarinnar.

Einnig hefur Dove sent frá sér vörur með lýsingunni „fyrir bæði venjulega og dökka húð“ [e. Normal to Dark Skin.]