Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Skammtafræðilegir yfirburðir Google

24.10.2019 - 05:54
FILE - This Friday, June 16, 2017, file photo shows the Google logo at a gadgets show in Paris. Google said it has achieved a breakthrough in quantum computing research, saying its quantum processor has completed a calculation in just a few minutes that would take a traditional supercomputer thousands of years to finish. (AP Photo/Thibault Camus, File)
 Mynd: AP
Tæknirisinn Google segist hafa búið til tölvu sem býr yfir skammtafræðilegum yfirburðum. Sycamore skammtagjörvi fyrirtækisins getur framkvæmt ákveðna aðgerð á 200 sekúndum. Öflugustu ofurtölvur heims væru í tíu þúsund ár að framkvæma sömu aðgerð samkvæmt Google. 

Munurinn á hefðbundnum tölvum og skammtatölvum er sá að hefðbundnar tölvur geyma upplýsingar í svokölluðum bitum, sem hafa annað hvort gildið 1 eða 0. Skammtabitin geta hins vegar bæði verið 1 og 0 samtímis. Það þýðir að þær geta gert marga útreikninga samtímis. Vandi vísindamanna hefur verið að setja saman vélar með nægilega mörgum skammtabitum til að geta verið samkeppnishæfar við hefðbundnu tölvurnar. Sycamore inniheldur 54 skammtabita, en einn þeirra virkaði raunar ekki. 

BBC hefur eftir Jonathan Oppenheim, prófessor við UCL háskólann, að Google hafi komið sér upp öflugu tæki. Áratugir séu þó þar til hægt verður að setja saman skammtatölvu sem getur leyst vandamál sem skipta raunverulegu máli. Prófun þeirra á tölvunni sé áhugverð. Hún sýni að Google hafi mikla stjórn á skammtatölvunni, en hún sé hvergi nærri þeirri nákvæmni sem þurfi til í almennilegri skammtatölvu.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV