Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Skáld gengur á jökul

Mynd: Þorvarður Árnason / Þorvarður Árnason

Skáld gengur á jökul

09.02.2018 - 21:34

Höfundar

Í skáldskap er hægt að ferðast hvert sem er, jafnvel hægt að fara í margra daga ferð um jökul án þess nokkru sinni að stíga fæti í mjöll eða á ís. Ljóð um slíka ferð verður þeim mun áhrifameira þegar einhver sem manni er annt um er raunverulega á ferðalagi um jökul með þurrar vistir til marga daga á bakinu og skíði á fótum til renna áfram eða afturábak í hvítri auðninni.

Fyrir allmörgum árum horfði Linda Vilhjálmsdóttir á eftir eiginmanni sínum stíga upp í langferðabíl og hefja síðan ferð fyrir ísbreiðu jökulsins. Henni líkaði ekki fyrirætlanin og fylgdi honum eftir í ljóðabálki sem árið 2006 kom út á bók með titilinn Frostfiðrildi.

Mynd með færslu
 Mynd: Þorvarður Árnason
Frostfiðrildi. Ljósmynd: Þorvarður Árnason

Á hverjum degi ráðstefnunnar Jöklar í bókmenntum, listum og lífinu las Linda brot úr bókinni og hafði að lokum lesið hana alla.

Linda Vilhjálmsdóttir starfaði sem sjúkraliði þegar fyrsta ljóðabók hennar Bláþráður kom út árið 1990. Tveimur árum síðar sendi hún frá sér ljóðabókina Klakabörn, Valsar úr síðustu siglingu kom síðan út árið 1996, Öll fallegu orðin árið 2000 og Frostfiðrildi 2006. Árið 2015 kom svo loks ný ljóðabók eftir Lindu Frelsi sem hún fékk menningarverðlaun DV í bókmenntum fyrir auk þess sem bókin var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Sjálfsævisagan Lygi eftir Lindu kom út árið 2003.