Skaðleg efni berast úr fráveitu í fugla

Mynd með færslu
 Mynd:

Skaðleg efni berast úr fráveitu í fugla

08.05.2014 - 15:07
Stefán Gíslason fjallaði í pistli sínum í dag um öll þau manngerðu efni sem nýta átti á afmörkuðu svið en hafa síðan ratað úti umhverfið með ýmsum hætti og afleiðingum. Pistilinn má líka lesa hér að neðan.

Í hverri viku berast fréttir af manngerðum efnum sem upphaflega voru framleidd til að gera gagn á afmörkuðu sviði, en hafa síðan borist út í náttúruna og eru farin að hafa þar allt önnur og víðtækari áhrif en þeim var upphaflega ætlað. Þessi efni eiga það flest sameiginlegt að brotna seint niður í náttúrunni og mörg þeirra trufla hormónastarfsemi í líkama manna og annarra dýra sem fá efnin í sig.

 Á síðustu árum hafa margar rannsóknir sýnt fram á skaðleg áhrif manngerðra efna á fiska og aðrar vatnalífverur. En nú er athyglin líka tekin að beinast í auknum mæli að áhrifum efnanna á fugla. Í síðustu viku bárust til dæmis fréttir af nýrri rannsókn á áhrifum hórmónaraskandi efna í fráveituvatni á fuglinn fossbúa í Suður-Wales, eða Cinclus cinclus eins og sá ágæti fugl nefnist á latínu. Í þessari rannsókn kom í ljós að ungar fossbúa sem náðu í fæðu úr ám í grennd við þéttbýlissvæði voru minni en á öðrum búsvæðum, auk þess sem hlutfall kvenkyns fugla var hærra. Þessi áhrif voru rakin til PCB-mengunar og brómeraðra eldvarnarefna, nánar tiltekið PBDE, þ.e.a.s. svokallaðra fjölbrómdífenýletera, sem væntanlega hafa borist út í árnar með fráveituvatni og þar með í fuglana sem ná sér í fæðu úr ánum. PCB eru menn svo sem löngu hættir að nota en PBDE er víða enn til staðar, til dæmis í tölvubúnaði, en þar var þessum efnum blandað í plast í ytra byrðinu til að draga úr hættu á íkveikju. Notkun PBDE til þeirra nota hefur verið bönnuð í Evrópu síðustu 10 árin eða svo, en bæði er að efnin eru enn til staðar í ýmsum vörum, og eins hitt að rétt eins og PCB á PBDE það til að safnast upp í náttúrunni og gera þar usla löngu eftir að notkun þess er hætt.

 Skaðleg áhrif PCB og PBDE á fossbúana í Suður-Wales eru rakin til áhrifa þeirra á skjaldkirtil fuglanna, en ungar sem ólust upp við ár í nágrenni borga reyndust hafa 43% minna af tilteknu skjaldkirtilhormóni en ungar sem héldu til við ár í dreifbýli.

 Líklega gengur okkur nokkuð vel að venjast leiðinlegum fréttum að áhrifum manngerðra efna á fiska og fugla í útlöndum. Hins vegar ýta sambærilegar fréttir af áhrifum sömu efna á mannfólkið líklega meira við mörgum. Mannskepnan lifir lengi og þess vegna hafa þrávirk efni enn frekar tilhneigingu til að safnast upp í mönnum en í öðrum skammlífari lífverum. Og sömuleiðis safnast efnin mest upp í kjötætum sem eru ofarlega í fæðukeðjunni, einmitt eins og maðurinn.

 Þó að eitthvert tiltekið manngert efni finnist í náttúrunni þar sem því var ekki ætlað að vera, þá er ekki þar með sagt að það hafi skaðleg áhrif á fólk. Fyrst þarf fólk þá að komast í snertingu við efnið, þannig að efnið komist inn í líkamann, og þegar þangað er komið er ekki endilega sjálfgefið að efnið geri einhvern usla.

 Þessar vangaveltur leiða hugann að annarri frétt sem birtist líka fyrir nokkrum dögum, en þar var sagt frá efnagreiningum sem gerðar voru í vetur á lokkum úr hári 30 barna í frönskum landbúnaðarhéruðum. Leitað var að leifum 53 mismunandi varnarefna í hárinu, en öll eiga þessi efni það sameiginlegt að vera talin geta truflað hormónastarfsemi líkamans. Að meðaltali fannst 21 þessara efna í hverjum hárlokki og 35 af þessum 53 efnum fundust í a.m.k. einum lokki. Þrettán efni fundust í öllum sýnunum, þar á meðal ýmis efni sem bannað er að nota í landbúnaði. Sum þeirra er þó leyft að nota í dýralækningum og í heimilishaldi. Magnið var reyndar örlítið, eða að meðaltali 639 píkógrömm í hverju milligrammi af hári, en það jafngildir rúmlega 0,6 milljónustupörtum. Af þessum niðurstöðum er svo sem ekki hægt að draga neinar stórar ályktanir um líklegt heilsutjón. Það eina sem þetta segir manni er að í þessum hárlokkum leyndust leifar af tugum manngerðra efna sem gætu verið skaðleg og sem maður vill væntanlega alls ekki að börnin manns séu með í hárinu. Og í þessu leynist líka áminning um hugsanleg hanastélsáhrif þessara efna, eða kokkteiláhrif eins og þau eru oftast nefnd. Þar er átt við samlegðaráhrif fleiri efna, sem geta verið meiri en samanlögð áhrif allra efnanna hvers um sig. Það getur þannig verið lítið öryggi í því að vita að magn einhvers tiltekins efnis sé undir hættumörkum fyrir viðkomandi efni, hafi þau á annað borð verið skilgreind, vegna þess að önnur efni geta hjálpað til við að magna upp heildaráhrifin.

 Eitt er kannski sérstaklega umhugsunarvert í þessari efnaumræðu. Ef sagan er skoðuð kemur nefnilega í ljós að flest þessi efni voru talin skaðlaus, eða voru að minnsta kosti kynnt þannig þegar þau voru fyrst sett á markað. Efnin gerðu öll sitt gagn og sköpuðu framleiðendum sínum sjálfsagt einhvern hagnað, eða jafnvel verulegan hagnað. Það var svo ekki fyrr en löngu seinna sem skaðsemin kom í ljós.

 Fyrir rúmu ári gaf Umhverfisstofnun Evrópu út skýrsluna „Late Lessons from Early Warnings“ eða „Seint er lært þótt árla sé aðvarað“, þar sem rýnt var í 88 tilvik frá síðustu áratugum þar sem ný efni eða ný tækni hafði verið sett á markað þrátt fyrir varnaðarorð efasemdarmanna um mögulega skaðsemi. Öll þessi tilvik áttu það sameiginlegt að varnaðarorðin þóttu ástæðulaus. Þegar horft er til baka kemur þó í ljós að aðeins í fjórum tilvikum af 88 höfðu talsmenn varúðarinnar rangt fyrir sér. Oftar en ekki hafa menn hunsað vísbendingar um hættu þar til ekki var lengur hægt að komast hjá skaðlegum áhrifum á heilsu og umhverfi. Í skýrslunni eru 20 slík tilvik rakin ítarlega, þ.á.m. tilvik sem varða kvikasilfursmengun frá iðnaði, frjósemisvandamál vegna notkunar skordýraeiturs, hormónaraskandi efni í algengum plastvörum og lyf sem hafa áhrif á vistkerfi. Í skýrslunni er lögð sérstök áhersla á mikilvægi þess að vísindin taki tillit til samverkandi þátta í stað þess að einangra einn þátt og einblína á áhrif hans. Þarna koma kokteiláhrifin aftur við sögu. Skoða þurfi málin í þverfaglegu samhengi og bregðast fyrr við hættumerkjum. Þeir sem valda skaða til frambúðar ættu að bæta hann og menn ættu að varast að mistúlka orðin „engar vísbendingar um skaðsemi“ sem „vísbendingar um enga skaðsemi“. Fjarvist sönnunar er nefnilega ekki fjarvistarsönnun.

 Nú er eðlilegt að sú spurning vakni hvað venjulegt fólk geti svo sem gert í þessu. Það eru jú einhverjir aðrir sem framleiða efnin og setja þau á markað – og svo er heimurinn líka orðinn svo skelfing flókinn að það er kannski engin leið að varast hætturnar. En tilfellið er jú að venjulegt fólk getur einmitt haft heilmikil áhrif með orðum sínum og gjörðum. Venjulegt fólk getur t.d. keypt Svansmerktar eða aðrar umhverfismerktar vörur sem innihalda miklu síður hættuleg efni en aðrar vöur. Og venjulegt fólk getur hvatt aðra til að gera slíkt hið sama. Venjulegt fólk getur líka keypt lífrænt vottaðar vörur, upprunnar úr landbúnaði þar sem notkun eiturefna er bönnuð. Og venjulegt fólk getur líka spurt og spurt og spurt, við öll hugsanleg tækifæri, um það hvort varan sem það er að hugsa um að kaupa innihaldi einhver hormónaraskandi efni eða önnur efni sem skaðað geta umhverfi og heilsu. Svörin liggja ekki alltaf á lausu, en ef enginn spyr hljóta framleiðendur og seljendur að túlka það svo að öllum sé sama.