Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sjúkraliðafélagið ósátt við sameiningaráform

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stjórn Sjúkraliðafélags Íslands mótmælir áformum mennta-og menningamálaráðherra um að sameina Fjölbrautaskólann við Ármúla og Tækniskólann. Slík sameining yrði hvorki nemendum né starfsfólki til framdráttar, segir í ályktun félagsins.

Fjölbrautarskólinn við Ármúla leggi áherslu á menntun heilbrigðisstétta og telur Sjúkraliðafélagið vandséð að stjórnendur Tækniskólans hafi áhuga á því að leggja áherslu á slíka menntun. 

Kristján Þór Júlíusson menntamálaráðherra sagði í fréttum RÚV í liðinni viku að engin ákvörðun hafi verið tekin um sameiningu skólanna. Skoða þurfi þó ýmsa möguleika vegna fækkunar nemenda í framhaldsskólum. Þá vísaði hann því á bug að verið væri að einkavæða Fjölbrautaskólann við Ármúla. 

Nemendur og kennarar í Fjölbrautaskólanum við Ármúla eru ósáttir við hugmyndir um sameiningu og hafa nemendur sett af stað undirskriftasöfnun gegn henni.