Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sjúkrahús að fyllast í New York

26.03.2020 - 05:16
epa08323072 A person walks through a nearly empty Times Square in New York, USA, 25 March 2020. A statewide shut down of all non-essential businesses and a ban on all non-solitary outside activities is currently in place to stop the spread of coronavirus and COVID-19.  EPA-EFE/JUSTIN LANE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Yfir eitt þúsund eru látnir í Bandaríkjunum af völdum kórónuveirufarladursins, og hátt í 70 þúsund staðfest tilfelli eru í landinu. Aðeins hafa greinst fleiri tilfelli á Ítalíu og í Kína, en fjölgun tilfella hefur verið hröð í Bandaríkjunum undanfarna daga.

Meirihluti tilfellanna er við austurströndina, þar af flest í New York. Álag á sjúkrahús í borginni er orðið verulegt, og er búist við því að gjörgæsludeildir allra sjúkrahúsa í New York borg verði orðnar fullar á morgun. 

Ríkisstjórinn Andrew Cuomo segist þó sjá merki þess að samkomubann sé byrjað að hafa áhrif, og farið sé að hægja á útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins í ríkinu. Hann segir þó að það verði að gera meira, sérstaklega til þess að halda tveggja metra reglunni þar sem tveir eða fleiri koma saman í New York borg. 

Samkvæmt spá faraldursfræðinga sem færð var þingmönnum fyrr í mánuðinum er gert ráð fyrir að á milli 70 og 150 milljónir Bandaríkjamanna geti smitast af veirunni. 

Efnahagspakki samþykktur í öldungadeildinni

Tvö þúsund milljarða bandaríkjadala fjárframlag ríkisins í efnahagskerfið var samþykkt í öldungadeild Bandaríkjaþings í nótt. Frumvarpið fer næst til fulltrúadeildarinnar. Samkvæmt því fá Bandaríkjamenn með innan við 75 þúsund bandaríkjadali í árslaun 1.200 dala eingreiðslu. Eingreiðslan er svo tekjutengd upp að 99 þúsund dala árslaunum, en þeir sem eru með meira en það fá enga greiðslu. 500 dölum er bætt við fyrir hvert barn. Þá verður settur upp ríkistryggður lánasjóður fyrir smærri fyrirtæki, og annar fyrir þau fyrirtæki sem eiga í miklum erfiðleikum vegna faraldrusins. Loks fá sjúkrahús í framlínu faraldursins 100 milljarða dala framlag frá ríkinu.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV