Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Sjúkrabílum á landsbyggðinni fækkar um níu

Mynd með færslu
 Mynd:
Sjúkrabílum á landsbyggðinni fækkar um áramótin þegar níu bílum verður lagt. Heilbrigðisumdæmum verður látið eftir að endurskipuleggja sjúkraflutninga með færri bílum.

Í dag rekur Rauði kross Íslands 77 sjúkrabíla og stendur til að endurnýja 30 bíla á næstu tveimur árum. Samkvæmt samningi við ríkið fækkar bílum um áramótin og verða þeir 68 talsins. Í kröfulýsingu Velferðarráðuneytisins er kveðið á um fjölda bíla í hverju heilbrigðisumdæmi og um leið fækkun í sumum umdæmum sem skal vera lokið um áramót. Ráðuneytið gerir einnig tillögu um hvar bílum skuli fækkað og virðist hún tilbúin í megindráttum. 

Hjá Heilbrigðisstofnuninni á Blönduósi fækkar um einn þegar bíl Skagastrandar verður lagt og svæðinu þjónað frá Blönduósi. Þá fækkar um einn bíl hjá Heilbrigðisstofnun Fjallabyggðar þegar Ólafsfirðingar missa bílinn sinn.

Hjá Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki verður einum bíl lagt, gömlum varabíl á Hofsósi sem ekki hefur verið notaður lengi. Hjá Heilbrigðisstofnun Þingeyinga þarf að fækka um einn bíl. Ekki fengust upplýsingar um hvaða bíll það verður en tveir bílar eru á Húsavík, einn á Kópaskeri og annar á Þórshöfn og enn annar á Raufarhöfn. 

Hjá Heilbrigðisstofnun Vesturlands fækkar um þrjá bíla. Á Hvammstanga, í Búðardal og á Ólafsvík eru í dag tveir bílar á hverjum stað en fækkar í einn. Hjá heilbrigðisstofnun Vestfjarða fækkar um einn bíl þegar þriðji bíllinn á Ísafirði sem áður var í Bolungarvík fer úr notkun.

Á Austurlandi fækkar um einn sjúkrabíl samkvæmt kröfulýsingu en forstjóra HSA hafði ekki borist neinn rökstuðningur um hvaða bíl mætti taka af skrá. Ekki verður fækkað sjúkrabílum á Suðurlandi, Suðurnesjum og á höfuðborgarsvæðinu. 

Í Velferðarráðuneytinu er fullyrt að til standi að auka sjálfræði einstakra heilbriðgðisumdæma um staðsetning sjúkrabíla. Í kröfulýsingu til Rauða krossins sem rekur bílana segir að umsjónarlæknar sjúkraflutninga eiga að greina þörf fyrir bíla og leita álits meðal annars hjá samráðsnefnd heilbirgðisstofnana í hverju umdæmi.

Þá eru uppi áform um að þróa viðbragðsteymi sem geta verið til taks þar sem sjúkrabíll er ekki nærri. Slíkt teymi starfar á Kjalarnesi og hefur reynst vel.