Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Sjúklingar borga fyrir innlögn á sjúkrahús

01.10.2013 - 16:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Fjárheimildir Landspítala hækka um 75 milljónir króna milli ára samkvæmt nýframkomnu fjárlagafrumvarpi. Einnig stendur til að meta tækjakaupaþörf spítalans. Þeir sem leggjast inn á Landspítala og önnur sjúkrahús verða að greiða gjald fyrir hvern legudag á sjúkrahúsi.

Útgjöld Velferðarráðuneytisins aukast samkvæmt fjárlögum ársins 2014 um 7,3 prósent og verða ríflega 17 milljarðar króna að teknu tilliti til áhrifa af almennum verðlags- og gengisbreytingum. Þar vega þyngst ríflega 8,3 milljarða króna hækkun á útgjöldum til tryggingamála, 4,5 milljarðar króna hækkun til Íbúðalánasjóðs og 1,5 milljarða króna hækkun til sjúkrahúsa, heilbrigðisstofnana og heilsugæslu. Þá verða framlög til málefni aldraðra hækkuð um 480 milljónir króna.

75 milljóna hækkun

Stærsti útgjaldaliður Velferðarráðuneytisins er rekstur Landspítalans. Gerir fjárlagafrumvarpið ráð fyrir að útgjöld til hans hækki um 75 milljónir króna. Unnið er að endurmati á þörf spítalans fyrir tækjakaup næstu ára og er þess vænst að þau mál skýrist á haustdögum. Meðal þess sem Landspítalanum sem og öðrum sjúkrahúsum á landinu er gert að gera til að koma til móts við hagræðingakröfu stjórnvalda er að innheima sérstakt gjald á hvern legudag á sjúkrahúsum og á það að skila Landspítalanum tæpum 200 milljónum króna í tekjur.

Komugjöld á heilsugæslu verða hækkuð en gjöld barna og ungmenna munu standa í stað. Þá verða framlög til Fæðingaorlofssjóð hækkuð um 450 milljónir króna og hámarksgreiðslur til foreldra hækka úr 350.000 krónum í 370.000 krónur en fallið er frá lengingu fæðingaorlofs úr 9 mánuðum í 12.

Tengist endurskoðun á greiðsluþátttöku sjúklinga

Hagræðingarkröfu á Landspítala er mætt að hluta með því að gjald verður innheimt af þeim sem leggjast inn á sjúkrahúsið. „Þarna er um að ræða atriði sem tengjast endurskoðun á greiðsluþátttöku sjúklinga. Þetta er atriði sem er ekki búið að fullútfæra en við gerum ráð fyrir að geti skilað hagræðingu á Landspítalanum. Hins vegar er Landspítalinn að taka til sín meira milli ára," segir Bjarni. Hann segir að gjaldtaka af þeim sem leggjast inn á sjúkrahús sé hluti af þeirri endurskoðun á kostnaðarhlutdeild sjúklinga sem nú fari fram og sé enn í gangi.