Ungt fólk lærir lítið um hvað felst í heilbrigðum ástar- eða vinasamböndum. Það fær ekki fræðslu um meðvirkni og stjórnlausa afbrýðisemi, um hvar mörk hins eðlilega og hins óeðlilega liggja. Þetta kom fram á kynningarfundi um nýtt átak Stígamóta sem hrint var af stað í dag og ber yfirskriftina Sjúk ást. Um 70% þeirra sem leita til Stígamóta hafa orðið fyrir ofbeldi fyrir átján ára aldur og margir hafa verið í óheilbrigðum samböndum. Samtökin telja brýnt að bregðast við þessu.