Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sjóveiki í siglingahermi

09.03.2019 - 19:34
Mynd:  / 
Netaviðgerðir og siglingar voru stundaðar af miklum móð í Sjómannaskólanum í dag þar sem fjöldi áhugamanna um sjómennsku sótti skólann heim. Sumir þurftu að flýja úr námsaðstöðu fyrir skipstjórnarnám vegna sjóveiki.

Sjómannaskólinn trónir efst á Rauðarárholti í Reykjavík og er turninn afar tilkomumikill. Inni í turninum í dag var mikið um að vera og þar þurfti enginn að vera kunnugur staðháttum því þar gefur að líta staðsetningartæki af bestu gerð.

„Við erum stödd á Skrúfudeginum sem er árlegur viðburður í Tækniskólanum og það eru nemendur í skipstjórn og vélstjórn sem standa fyrir þessum degi,“ segir Hildur Ingvarsdóttir, skólastjóri Tækniskólans.

Eitt af því sem þarf að kunna ætli maður að stunda sjómennsku er að gera við net.

„Ég sem sagt læri það að stjórna og sigla skipum. Ég var fimmtán ára þegar ég byrjaði nám hérna. Ég útskrifaðist úr grunnskóla einu ári fyrr. Þetta er náttúrulega orðinn framhaldsskóli og það er ástæðan fyrir því að ég kom hingað í Tækniskólann því þá getur maður útskrifast með skipstjórnarréttindi og með stúdentspróf,“ segir Einar Bergmann Daðason, nemi í skipstjórn í Tækniskólanum.

Í skipstjórnarnáminu er notaður fullkominn siglingahermir.

Björgvin Steinsson, kennir við Tækniskólann. Hann segir að fjölda hafna bæði hér á landi og erlendis sé að finna í herminum. Kennsla á herminn hefst á öðru ári. Björgvin segir að margir gestanna í dag hafi þurft að flýja herminn vegna sjóveiki. „Hérna erum við að æfa aðstæður sem gerast í raunveruleikanum. Mistökin eru gerð hér en ekki um borð. Þannig virkar kerfið,“ segir Björgvin.