Sjötug kona ákærð fyrir tilraun til manndráps

06.02.2019 - 16:34
Akranes, Vesturland, H0fn, höfnin, sílóin, síló, Faxaflói.
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.is
Héraðssaksóknari hefur ákært sjötuga konu á Akranesi fyrir tilraun til manndráps. Henni er gefið að sök að hafa stungið tengdason sinn með hnífi í brjóstkassann í nóvember á síðasta ári. Konan neitar sök og segir að tengdasonurinn hafi sjálfur gengið að henni og farið þannig á hníf sem hún hélt á.

Þetta kemur fram í gæsluvarðhaldsúrskurði Héraðsdóms Vesturlands yfir konunni sem staðfestur var í Landsrétti í gær. Fréttastofa óskaði eftir ákærunni en fékk þau svör að ekki væri hægt að afhenda hana þar sem birtingarfrestur væri ekki liðinn.

Konan hefur í yfirheyrslum hjá lögreglu sagst hafa verið inni í eldhúsi umrætt kvöld að þrífa þegar hún tók eftir tengdasyninum fyrir aftan sig. Hún hafi snúið sér við með stóran hníf í hendinni en segist ekki muna hvernig hún hélt á hnífnum, það hafi verið í hæð við eldhúsvaskinn. Hún hafi síðan tekið eftir því að tengdasyninum blæddi og talið að hann hefði sjálfur gengið að henni og farið á hnífinn. 

Fram kemur í gæsluvarðhaldsúrskurðinum að konunni og tengdasyninum beri ekki saman um atvik máls en framburður tengdasonarins eigi sér að mörgu leyti stoð í gögnum málsins.

Hann hefur sagt að hún hafi reynt að fela síma hans og fartölvu þannig að hann gæti ekki hringt eftir hjálp. Þá hefur lögreglan haft grun um að hún hafi ætlað að hindra að hann kæmist af vettvangi, meðal annars með því að skera á hjólbarða á bíl hans. Maðurinn náði síðan að loka sig af og hringja í sambýliskonu sína, dóttur konunnar, sem óskaði eftir lögregluaðstoð. 

Fram hefur komið í gæsluvarðhaldsúrskurðum að lögreglan hafi einnig haft grun um að konan hafi verið byrjuð að hreinsa vettvanginn eða koma sönnunargögnum undan því í bíl fyrir utan húsið hafi fundist hnífur og blóðug föt. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi