Sjötta hvert barn býr á stríðssvæði

15.02.2018 - 04:01
epa06434478 Displaced children play inside the Atamah camp, at the Syrian-Turkish broder in Idlib, Syria, 12 January 2018. About 22,500 family from southern Idlib countryside and northern Hamah countryside left their villages (more than 100 villages) to
Börn að leik í flóttamannabúðum í Idlib, skammt frá landamærum Sýrlands og Tyrklands. Mynd: EPA-EFE - EPA
Sjötta hvert barn í heiminum býr á stríðssvæði. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Save the Children. Sýrland, Afganistan og Sómalía eru hættulegustu svæði heims fyrir börn segir í skýrslunni.

Yfir 357 milljónir barna búa á stríðssvæðum í dag, eða 75 prósentum fleiri en árið 1995 þegar 200 milljónir barna bjuggu á stríðssvæðum. Börn í Mið-Austurlöndum eru líklegust til að búa nærri átakasvæðum, en um fjörutíu prósent allra barna þar búa innan við 50 kílómetrum frá bardagasvæði.

Tæplega helmingur barnanna sem búa á stríðssvæðum, eða um 165 milljónir þeirra, eru sögð búa á stórátakasvæðum. Þau eiga á mestri hættu á að verða fyrir því sem Sameinuðu þjóðirnar kalla gróf brot; það eru morð eða limlestingar, þar sem börn eru notuð í hernað, kynferðisbrot, mannrán, árásir á skóla og sjúkrahús og meinaður aðgangur mannúðaraðstoðar.

Save the Children sótti upplýsingar í gögn Sameinuðu þjóðanna og annarra stofnana, en gagnrýndi gloppóttar upplýsingar sem stríðandi fylkingar gátu gefið.

Helle Thorning Schmidt, stjórnandi Save the Children, segir börn vera að upplifa hluti sem ekkert barn ætti nokkurn tímann að þurfa að reyna. Heimili þeirra, skólar og leikvellir séu orðin að vígvöllum og þau sjálf séu beitt kynferðisofbeldi og jafnvel notuð sem sjálfsmorðssprengjur. Glæpir á borð við þessa séu þeir allra grimmustu sem hægt sé að hugsa sér, hefur breska ríkisútvarpið BBC eftir henni. Segir Schmidt þetta gróf brot á alþjóðalögum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi