Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sjósundsfólk hæstánægt með nýju baðaðstöðuna

08.12.2018 - 18:39
Mynd:  / 
Það hefur lengi verið vinsælt að fá sér sundsprett í sjónum við Langasand á Akranesi en nú er líka hægt að slaka þar á í heita pottinum. Sjósundsfólk er himinlifandi með nýja aðstöðu sem var opnuð í dag. 

„Hér erum við að opna einstakt mannvirki sem er þá til nýtingar fyrir alla landsmenn og ferðamenn og ekki síður íbúa bæjarins. Fyrir bæjarfélagið er vissulega upplyfting að auka á þjónustu fyrir íbúana þar sem þeir fá enn fleiri staði til að njóta lífsins,“ segir Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraneskaupstaðar.

Framkvæmdin hefur tekið alls eitt og hálft ár. Laugin verður opin tvö virk kvöld í viku og um helgar. Heildarkostnaður er um 120 milljónir en til að byrja með verður ókeypis í laugina. 

Hvernig líst þér á þessa nýju aðstöðu? „Mér líst æðislega vel á hana. Ég var ekki mjög bjartsýn áður en þetta kom. En núna finnst mér þetta alveg meiriháttar. Ég reyni að fara tvisvar til þrisvar í viku. Þannig þetta verður allt annað líf fyrir okkur sem förum í sjóinn að þurfa ekki að fara upp í sundlaug alltaf. Þetta er geggjað og geggjað útsýni. Ég er svakalega hamingjusöm í dag,“ segir Hjördís Hjartadóttir, sjósundskappi.

„Þetta er alveg svakalega gott, að fara í sjóinn, það er toppurinn. Svo að koma hérna í þessa nýju aðstöðu, þetta gerist ekki glæsilegra. Alveg örugglega verður þetta aðdráttarafl. Þetta er góður hópur eins og þið sjáið. Alltaf líf og fjör,“ segir Jón Pálmi Pálsson, sjósundskappi.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV