Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Sjóslysum hefur fækkað verulega

25.01.2018 - 11:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sjúkraskrá Íslands barst 134 tilkynningar um slys til sjós í fyrra og fækkar þeim um 37% frá árinu 2016. Öryggisstjóri hjá Samherja segir að mikil vakning hafi orðið um öryggi sjómanna.

Í umfjöllun Fiskifrétta í dag, um öryggi í sjávarútvegi, kemur fram að árið 2017 hafi verið fjórða árið í sögunni þar sem enginn lætur lífið úti á sjó við Ísland. Ekkert banaslys varð heldur árin 2008, 2011 og 2014. Þá fækkaði tilkynntum slysum til Sjúkraskrár Íslands um 37% frá árinu 2016, úr 213 niður í 134. Jafnframt fækkaði tilkynningum til Rannsóknarnefndar samgönguslysa. 

Meira öryggi í nýjum skipum

Snæfríður Einarsdóttir, öryggisstjóri hjá HB Granda, segir í samtali við Fiskifréttir að endurnýjun skipaflotans eigi sinn þátt í þessu. Til dæmis hafi enn ekkert alvarlegt slys orðið um borð í Venus NS síðan skipið var tekið í notkun 2015. Mörg slysa til sjós verði í lestum skipanna, en í nýju ísfisktogurunum séu sjálfvirkar og mannlausar lestir, sem vegi þungt í því að auka öryggi áhafnar. 

Jóhann Gunnar Sævarsson, öryggisstjóri hjá Samherja, tekur undir þetta. Hann segir í samtali við RÚV að vinnuaðstæður um borð hafi batnað mikið, einkum með tilkomu nýrra skipa. „Svo er þannig búnaður um borð að það er skylda að nota hjálma og menn hafa bein samskipti í gegnum talstöð sem skiptir sköpum í dag. Menn eru almennt betur varðir,“ segir Jóhann. Hann segir algengustu slysin verða þegar fólk hrasar, klemmir sig eða sker sig en oftast séu þau minniháttar. 

Öryggismál miklu meira í umræðunni

Hann segir að öryggismál séu mun meira í umræðunni nú en áður. „Við erum auðvitað alltaf að vinna í því að fræða okkar starfsmenn og það er bara almenn vakning um öryggismál. Við finnum að þetta er miklu meira rætt, fólk er upplýstara um sín réttindi, lög og reglur og skynjar að það geti haft áhrif,“ segir Jóhann. 

Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnarskóla Íslands, segir í samtali við Fiskifréttir, að þó góður árangur hafi náðst þá þurfi menn að taka sig á við gerð áhættumats. Í því felist að skoða skip með gagnrýnum hætti, greina verkferla og umhverfisáhrif. Þar sé brotalöm í dag. Jóhann segir að þetta hafi verið gert hjá Samherja, en sífellt sé lögð meiri áhersla á að meta áhættu með ítarlegri hætti. „Við erum í áhættugreiningu, þar sem allir vinnuferlar eru skráðir og starfsmenn í teymum meta sínar starfsstöðvar. Við erum búin að ráða inn sér starfsmann í þetta og erum á fullu að vinna í þessu,“ segir Jóhann. 

jonthk's picture
Jón Þór Kristjánsson
Fréttastofa RÚV