Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Sjórinn leikur Kolkuós illa

13.07.2012 - 20:47
Mynd með færslu
 Mynd:
Landbrot af völdum sjávar lék uppgraftarsvæði fornleifafræðinga við Kolkuós í Skagafirði afar illa í vetur og verður þess freistað nú í sumar að ljúka rannsókn á vettvangi.

Fornleifafræðingar hafa undir stjórn Ragnheiðar Traustadóttur, stjórnanda Hólarannsóknarinnar, unnið í kappi við tímann og óblíð náttúruöflin frá árinu 2003 við að bjarga forngripum og menningarsögulegum upplýsingum á tanganum, sem skagar út í ósinn, frá því að skolast út á haf. Ragnheiður Traustadóttir segir að efnahagsörðugleikar hafi augljós áhrif á opinber framlög til fornleifarannsókna og gildi þá einu þótt svæði séu í stórhættu.

Vantar björgunarsjóð

„Minjavarslan þyrfti að búa yfir sjóði til að stunda björgunarrannsóknir eins og gert er ráð fyrir í lögum að ráðist sé í þegar minjar eru í hættu. Minjar frá ýmsum tímaskeiðum í sögu þjóðarinnar eru víða að fara í sjóinn,“ er haft eftir Ragnheiði í tilkynningu frá aðstandendum fornleifarannsóknarinnar. 

Frá upphafi björgunarrannsóknarinnar við ósa Kolku hefur megináherslan verið lögð á að bjarga berskjölduðum minjum frá glötun. Þeim þætti rannsóknarinnar verður lokið í ár. Eftir stendur úrvinnsla sem hefur setið á hakanum þar sem minjastaðurinn hefur nánast á hverju ári orðið fyrir einhverjum skakkaföllum af völdum sjávar, mest þó síðustu fjögur ár.

Í tilkynningu frá aðstandendum rannsóknarinnar við Kolkuós segir að hin forna meginhöfn Skagfirðinga við Kolkuós hafi verið þaulskipulagt athafnasvæði með fjölda búða sem tengdust um götu eftir endilöngum tanganum. Höfnin og verslunarstaðurinn við hana séu taldar ástæðurnar fyrir því að valdamiðstöð reis á Hólum í Hjaltadal og að biskupstólnum var valinn þar staður.

Elstu minjar frá landnámi

Gatan var lögð eftir 1104 en elstu minjarnar eru frá landnámi. Búðir hafa staðið á hafnarsvæðinu og milli þeirra stígar og steinlagðar götur. Þær gegndu mismunandi hlutverki, sumar voru svefnstaður, aðrar birgðageymslur eða sölutjöld og enn aðrar verkstæði ýmiss konar. Skip í milliríkjasiglingum gátu legið í vari við Kolkuós því að höfnin var góð frá náttúrunnar hendi. 

Við uppgröftinn hafa fundist leifar af nauðsynja- og munaðarvöru, sem flutt var milli landa, kambar, silfurpeningar, gangsilfur, bronsnálar, nálarhús, brot úr innfluttum brýnum, tinnur, leirker, bökunarhellur, skipasaumur, unnin hvalbein, ýmislegt úr járni auk annarra mannvistarleifa og jafnvel heiðinna grafa.