Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Sjómenn leggja niður störf klukkan 23 í kvöld

10.11.2016 - 08:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
3.500 sjómenn leggja niður störf klukkan 23 í kvöld takist samninganefndum Sjómannasambands Íslands og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi ekki að semja. Samninganefndirnar eiga fund hjá ríkissáttasemjara klukkan hálf tvö í dag og þá verður gerð lokatilraun til að koma í veg fyrir verkfall.

Staðan í samningaviðræðunum er viðkvæm og Jens Garðar Helgason, formaður samtaka SFS, vildi lítið segja við fréttastofu í morgun annað en að hann væri hóflega bjartsýnn. Ekki náðist í Valmund Valmundarson, formann Sjómannasambandsins.

Takist samningar ekki yrði þetta fyrsta verkfall sjómanna í fimmtán ár. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu hafa skipstjórar á sumum þeirra skipa, sem eru á veiðum, haft samband við útgerðirnar og óskað eftir upplýsingum um hvað þeir eiga að gera. Þá eru þrjú skip á veiðum í Barentshafi.  Það tekur þau þrjá til fjóra daga að sigla til heimahafnar. 

Samninganefndirnar funduðu hvor í sínu lagi fram eftir kvöldi í gær eftir hálfrar annarrar klukkustundar fund með Ríkissáttasemjara. Þær hafa náð samkomulagi  um fiskverð, sem var eitt stærsta ágreiningsmálið.