Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sjókvíaeldi stórhættulegt fyrir lífríkið

03.03.2015 - 14:39
Mynd með færslu
 Mynd:
Fulltrúar veiðifélaga á Norðurlandi hafa miklar áhyggjur af áformum um stórfellt sjókvíaeldi í Eyjafirði. Formaður veiðifélags Laxár í Aðaldal óttast lúsafaraldur og að blöndun á eldisfiski við villta fiskistofna geti valdið óafturkræfum skaða í náttúrunni.

Nýlega var birt tillaga að matsáætlun fyrir 8000 tonna fiskeldi í sjókvíum í Eyjafirði. Þessum áformum var mótmælt á fundi á Akureyri um síðustu helgi þar sem saman komu ýmsir sem telja sig eiga hagsmuna að gæta; fulltrúar veiðifélaga, smábátasjómenn og fleiri.

Óttast erfðamengun og lúsafaraldur.

Jón Helgi Björnsson, formaður veiðifélags Laxár í Aðaldal, segir þá sem eru með laxveiðiár óttast mjög að það muni sleppa út fiskur sem muni leita upp í árnar og valda erfðamengun. „Menn eru að tala um að í hverju búri séu kannski 50 til 100 þúsund fiskar, á meðan stofninn í stærstu ánum er kannski 2000 fiskar," segir hann.

Þá sé mikil hætta af lúsasmiti sem fylgi svo umfangsmiku fiskeldi. Það myndi strax gera mikinn usla við Eyjafjörð þar sem margar af bestu bleikjuveiðiám landsins falla til sjávar. Þá væri stutt í gjöfular laxveiðiár.

Enn leifar af misheppnuðu eldi í firðinum.

Smábátasjómenn bentu á að enn væru hættulegar leifar víða í Eyjafirði eftir misheppnaðar fiskeldistilraunir, ónýtur búnaður, tæki og dræsur. Og Jón Helgi bendir á að 8000 tonna sjókvíaeldi fylgi mikil mengun. „Þetta er því bara stórhættulegt fyrir lífríkið á þessu svæði."