Sjóðurinn ræðst í markvissa brúarsmíð

14.01.2016 - 17:36
Mynd: Stocksnap.io / Stocksnap.io
Tækniþróunarsjóður fær stóraukin fjárframlög á fjárlögum þessa árs, 975 milljónum meira en hann fékk í fyrra. Fjárveitingin er liður í aðgerðaáætlun atvinnuvegaráðherra í þágu sprotafyrirtækja. Sjóðurinn, sem var stofnaður árið 2004, hefur aldrei haft úr jafn miklu að spila. Sigurður Björnsson, sviðsstjóri á rannsóknar- og nýsköpunarsviði Rannís, segir féð nýtast til brúarsmíði milli rannsóknastarfs og atvinnulífs. Auk þess verður ráðist í allsherjar uppstokkun á starfsemi sjóðsins.

  „Sjóðurinn hefur stækkað allverulega, það er 70% aukning frá síðasta ári og það kallar á nýja hugsun, nýja aðgerðaáætlun þannig að við erum í raun að stokka upp þetta kerfi sem hefur verið við lýði frá því 2004. Ferlið á að vera snarpara, við ætlum að veita stærri, öflugri styrki en þeir eiga að vera styttri. Við viljum að menn skili árangri tiltölulega fljótt. Það er sem sagt einn þátturinn. Hinn þátturinn er að við erum að reyna að kalla eftir meiri þekkingaryfirfærslu úr háskóla og rannsóknarstofnanaumhverfi.“

Heimsþekkt vandamál

Í haust kom út skýrsla á vegum UNESCO þar sem fram kom að það gengi illa á heimsvísu að brúa bilið milli rannsókna og atvinnulífs.

„Þetta er þekkt vandamál, við erum kannski með samkeppnissjóði sem annars vegar eru að styrkja akademískar rannsóknir og svo sjóði á borð við tækniþróunarsjóð sem styrkja nýsköpun, atvinnulífið. Þá er þessi svokallaða gjá þarna á milli, sem er ekkert séríslenskt fyrirbæri. Við erum að reyna að svara því og brúa þetta bil. Þetta er ákveðin tilraun sem er í gangi.“

En hefur ekki margoft áður verið ráðist í slíka brúarsmíð, ekki er þetta í fyrsta skipti? „Kannski ekki alveg í fyrsta skipti en þetta er í fyrsta skipti sem við gerum þetta markvisst með sérstökum styrkjaflokki sem heitir hagnýtar rannsóknir þar sem við vonumst til þess að háskólar og rannsóknarstofnanir leiði verkefni, sem kannski hafa verið unnin á akademískum grunni, út í atvinnulífið.“ Að auki verður hægt að sækja um sérstaka einkaleyfisstyrki. 

Ísland stendur verr að vígi

Sigurður vonar að hagnýtingarstyrkirnir verði til þess að jafna stöðu Íslands og nágrannaþjóðanna. Við stöndum á pari við nágrannaþjóðir okkar þegar kemur að fjármögnun rannsókna innan háskóla og stofnana en fyrirtækin standa lakar. „Við erum í raun bara hálfdrættingar á við Svía, Finna og Dani í tengslum við fjármögnun rannsókna og þróunar inni í fyrirtækjunum sjálfum og þar þurfum við að gera betur.“

Vill jafna stöðu umsækjenda

Tækniþróunarsjóður hefur sætt gagnrýni vegna þess að nýliðar og stöndug fyrirtæki keppa gjarnan um sömu styrkina. Sigurður segir að brugðist verði við þessu.

„Já, við erum að stilla þessu þannig upp að menn séu að keppa meira á jafnréttisgrunni þannig að frumherjar sem eru að byrja séu ekki að keppa við stór og þroskuð fyrirtæki eða jafnvel háskólastofnanir. Það er eitt af því sem við erum að reyna að leysa.“

Sigurður segir umsóknarferlið hjá sjóðnum krefjandi og óalgengt að umsækjendur komist í gegn í fyrstu atrennu. Þá sé algengt að verkefni sem hljóta styrk verði ekki að veruleika. Það sé þó ekki vandamál. „Við erum að fjárfesta í þekkingunni og það fólk sem hefur verið að stunda rannsóknir, með aðstoð okkar kemur þá bara aftur með nýjar hugmyndir.“ 

Aukin eftirfylgni, hertar kröfur

Nú skila styrkþegar skýrslum um framvindu verkefna á hálfs árs fresti. Sigurður segir að nú verði gerðar stífari kröfur svo sem í tengslum við fjármögnun, þess að fyrirtækin hafi burði til að klára verkefnin. Markmiðið er að stærri styrkir til skemmri tíma virki hvetjandi og leiði til aukinna afkasta.

„Það er meiningin en þetta er náttúrulega ný stefnumótun og við munum taka það til endurskoðunar ef eitthvað reynist ekki vel.“

Hann hefur ekki áhyggjur af því að framleiðslukrafan sé of rík og bendir á að það sé hefð fyrir því hjá sjóðnum að fylgja verkefnum eftir, þeir sem ekki ná að klára verkefni á styrktíma geti því oft fengið styrk sinn framlengdan. „Menn koma aftur og aftur og við reynum að klára verkefnin.“

Veitir ekki af milljarðinum

Sigurður telur að sjóðnum veiti ekki af þessum auka milljarði. Nútíminn byggi á öflugu nýsköpunarstarfi og sjóðurinn ýti undir nýsköpun og nýliðun í atvinnulífinu. Það sé forsenda þess að halda ungu fólki í landinu. „En samt sem áður erum við líka að ýta undir alþjóðlegt samstarf, við megum ekki loka okkur af hér á Íslandi en með meiri tækifærum eru auðvitað auknar líkur á því að vel menntað ungt fólk haldi áfram að búa hér.“ 

Hann fullyrðir að sjóðurinn komi þjóðfélaginu vel og bendir á að úttekt sem unnin var á fyrstu fimm starfsárum sjóðsins hafi sýnt fram á jákvæð áhrif hans. Á þessu ári verður unnin úttekt á áhrifum starfsemi sjóðsins á árunum 2009 -2013.

„Það er auðvitað þannig að þegar verkefnum lýkur líður ákveðinn tími þar til við sjáum árangurinn, þjóðhagslegan árangur, en við getum líka litið til rannsókna erlendis, þess sem Norðmenn hafa verið að gera. Þeir segja að hver króna sem ríkið leggur inn í sjóð á borð við Tækniþróunarsjóð skili fimm til sjö krónum til baka til þjóðfélagsins.“

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi