Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sjóðirnir hafa rétt til að kaupa Valitor

25.04.2017 - 17:44
Mynd: Rúv / Rúv
Arion banki vinnur að undirbúningi að skráningu bankans á markað. Samkvæmt heimildum Spegilsins eru einnig önnur áform í bígerð: að skilja lykileignir frá og selja sérstaklega til að hámarka verðmæti. Einnig að erlendu kaupendurnir í Arion hafi þegar kauprétt á Valitor.

Framvindan í sölu Arion gæti orðið flókin

Það er ekki einfalt að selja stóra eign eins og Arion, um 160 til 200 milljarða virði, á litlum markaði eins og Íslandi. Því stendur til að setja Arion á markað bæði á Íslandi og Norðurlöndum, hugsanlega í Svíþjóð.

Þetta hljómar allt mjög sennilega. Nýleg kaup fjögurra erlendra aðila í Arion benda þó til að framvindan verði hugsanlega heldur flóknari.

Aðeins 36% hlutur Arion á markað?

Þrír erlendir sjóðir og Goldman Sachs bankinn, allir kröfuhafar í Kaupþingi, keyptu nýlega 29 prósent í Arion. Sjóðirnir þrír, Taconic, Attestor og Och-Ziff tryggðu sér auk þess kauprétt í Arion upp á 22 prósent og gætu því eignast alls 51 prósent í bankanum, talan vísast ekki tilviljun. Ríkið á svo þrettán prósent.

Minnihlutinn, 36 prósent, yrði þá boðinn út. Minni eign er fræðilega séð seljanlegri en aðeins fræðilega. Norrænir lífeyrissjóðir fjárfesta til dæmis almennt ekki í félögum í meirihlutaeign einstakra fjárfesta. Í viðbót gæti það fælt kaupendur frá að sjóðirnir eru ekki langtíma fjárfestar því þannig er þeirra viðskiptamódel.

Arion gæti verið bútaður niður fyrir útboð

En samkvæmt heimildum Spegilsins hangir fleira á spýtunni. Arion banki á nokkur félög, þar á meðal Valitor sem er verðmætt fyrirtæki. Það starfar erlendis, umsvifin fara vaxandi. Virði Valitors er hugsanlega tvisvar sinnum bókfært eigið fé og án efa meira virði sem sjálfstætt fyrirtæki en sem hluti af Arion.

Ætlun nýrra eigenda og Kaupþings er því samkvæmt heimildum Spegilsins að brjóta bankann upp. Með þeirri ráðstöfun bæru allir meira úr bítum, bæði kröfuhafar Kaupþings og einnig ríkið sem á í Arion.

Arion banki skilar meiru ef eignir seldar sérstaklega

Þetta væri ekki einfalt mál en yrði þá gert áður en Arion fer á markað. Dótturfélög Arion banka þá klofin frá og hlutabréfum þeirra deilt á eigendur bankans. Íslenska ríkið fengi þá þrettán prósent af Valitor og öðrum eignum, í samræmi við eignahlut ríkisins í Arion. Nýju eigendurnir fjórir í Arion fengju 29 prósent og Kaupskil, eignarhaldsfélag Arion 58 prósent. Og vel að merkja, sjóðirnir fjórir eiga líka í Kaupþingi sem á Kaupskil og fengju því skerf af hlut Kaupskila.

Kaupréttur í Valitor til nýrra eigenda í Arion

Það er svo einn liðurinn í viðbót í þessari áætlun samkvæmt heimildum Spegilsins. Sjóðirnir þrír sem eiga kauprétt á 22 prósentunum í Arion hafa einnig kauprétt á þeim bréfum í Valitor sem Kaupþing kann að eignast, verði eignir Arion seldar frá. – Þessi hugsanlega sala hefur ekki verið rædd í stjórn Arion, samkvæmt heimildum Spegilsins.

Kaupréttur sem hefur farið leynt

Eins og áður segir virðast þeir sem til þekkja sammála um að Valitor sé verðmæt eign og verðið gæti því orðið um tvöfalt bókfært eigið fé. En þessi liður kaupsamningsins, um kauprétt sjóðanna þriggja á bréfum Kaupþings í Arion-félögum, hefur engu að síður verið á fárra vitorði. Talsmaður Kaupþings vildi hvorki játa þessu né neita en aðrar heimildir Spegilsins hafa staðfest þetta.

Ýmsar hindranir á veginum

Það er alls ekki þar með sagt að þetta gangi upp. Í fyrsta lagi: það er armslengdarfyrirkomulag í gegnum Kaupskil. Í öðru lagi þá hefur Fjármálaeftirlitið enn ekki metið hæfi erlendu kaupendanna fjögurra til að fara með virkan eignarhlut í Arion banka.

Reynir á armslengdar-fyrirkomulag Kaupþings og Kaupskila

Varðandi fyrra atriðið þá á Kaupþing Kaupskil sem á aftur 58 prósent í Arion. Bæði Kaupþing og Kaupskil hafa að leiðarljósi að hámarka afrakstur eignasölu og það er einfalt að sýna fram á að það fáist meira fyrir Arion með því að selja eignir fyrir útboð. En um leið má efast um að viðleitni til armslengdar haldi.

Nýir eigendur Arion enn ekki fengið hæfnismat

Mat Fjármálaeftirlitsins er kannski helsta áhætta sjóðanna þriggja sem hafa hug á að kaupa Valitor. Á það hefur enn ekki reynt. Í svari við fyrirspurn Spegilsins segir FME að stofnunin geti ekki upplýst um afgreiðslu hæfismats hjá einstökum stjórnarmönnum og eigendum. Það tekur nokkurn tíma að fara í gegnum það ferli.

Samkvæmt heimildum Spegilsins hafa nýir eigendur í Arion enn ekki sent inn tilskilin gögn og hafa því enn ekki rétt til að fara með virkan eignarhluta. Spegilinn hefur áður rakið áhyggjur Alþjóða gjaldeyrissjóðsins af því hvernig FME er í stakk búið til að gegna eftirlitshlutverki sínu. Á það mun til dæmis reyna varðandi Arion banka.

Leyndin kemur á óvart, ekki endurskipulagningin

Það er almennt eðlilegt og viðbúið að nýir eigendur endurskipuleggi félög sem fjárfest er í. En það kemur kemur á óvart að Kaupþing hafi gert kaupréttarsamning sem fer jafn leynt og raun ber vitni.