Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sjö milljón farþegar á árinu

16.10.2017 - 10:59
Mynd með færslu
 Mynd: Isavia
Sjö milljónasti farþeginn sem fór um Keflavíkurflugvöll í ár kom frá Belfast á dögunum; Chris og Joanne Bradley og voru þau leyst út með gjöfum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Isavia. Farþegafjöldi um flugvöllinn náði 6,8 milljónum í fyrra en Isavia telur að fjöldinn verði 8,7 milljónir á þessu ári, fjórfalt fleiri en árið 2010.

 

Þar segir jafnframt að parið væri á leið í ferðalag um Ísland í fjóra daga og að þau ætluðu sér að fara Gullna hringinn og í Bláa Lónið auk þess sem þau vonuðust til þess að sjá norðurljósin. 

Hver farþegi talinn tvisvar 

 

Talning farþega um Keflavikurflugvöll skiptist í komufarþega, brottfararfarþega og skiptifarþega og skiptist fjöldinn um það bil jafnt í þrennt. Þannig voru rúmlega 2,2 milljónir brottfararfarþegar, rúmlega 2,3 milljónir komufarþegar og skiptifarþegar 2,4 milljónir en þeir farþegar millilenda á flugvellinum og fara ekkert inn í landið.

„Það má segja að þetta séu farþegahreyfingar, farþegar eru taldir á leiðinni út og inn,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia. Skiptifarþegar séu taldir þegar þeir koma inn á flugvöllinn og út þannig að hver þeirra er talinn tvisvar. Þannig megi í rauninni deila í heildarfjölda farþega um flugvöllinn með tveimur til að fá raunverulegan fjölda farþega. 

Isavia telur að farþegafjöldinn fari yfir átta milljónir í desember. Samkvæmt farþegaspá Isavia verður fjöldi farþega í ár 28 prósentum meiri en í fyrra. 

 

 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV