Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sjö femínistar handteknir í Sádi-Arabíu

19.05.2018 - 17:17
epa06230469 A woman sits behind the wheel of a car in Riyadh, Saudi Arabia, 27 September 2017. According to reports on 26 September 2017, Saudi Arabia?s King Salman bin Abdulaziz Al Saud has issued a decree that will allow women to drive and which is to
Kona að aka í Sádi-Arabíu. Mynd úr safni.  Mynd: EPA
Sjö femínistar hafa verið handteknir í Sádi-Arabíu, aðeins tveimur vikum áður en til stendur að afnema bann um að konur megi ekki keyra bíla.

Yfirvöld í landinu hafa ekki gefið upp nöfn þeirra heldur aðeins að sjö hafi verið handtekin fyrir að grafa undan öryggi og stöðugleika í konungsríkinu og sömuleiðis fyrir að grafa undan einingu þjóðarinnar. Greint hefur verið frá nöfnum þeirra í fjölmiðlum í landinu. Hinar handteknu eru meðal annars sakaðar um að eiga í grunsamlegum samskiptum við erlenda stjórnmálaflokka.

Konum hefur árum saman verið bannað að aka bíl í Sádi-Arabíu og til stendur að afnema bannið 24. júní næstkomandi. Afnám akstursbannsins er meðal umbóta sem Mohammad bin Salman, krónprins, hefur boðið. Fyrr á árinu fengu konur í fyrsta sinn að sitja í stúku á fótboltaleikvangi.

Orðrómur er um að stjórnvöldum hugnist ekki að þrýst sé á um slíkar umbætur utan frá, ákvarðanir um þær eigi að koma frá ríkinu, að því er AFP fréttastofan greinir frá. Samkvæmt upplýsingum frá Mannréttindavaktinni, Human Rights Watch, var hringt í nokkra aðgerðasinna sama dag og tilkynnt var um afnám akstursbannsins, og þeir varaðir við að ræða málið við fjölmiðla.

Konurnar, sem voru handteknar, höfðu ekki aðeins barist gegn akstursbanninu heldur einnig gegn lögum um að hver kona þurfi að eiga karl sem forráðamann. Samkvæmt sádi-arabískum lögum getur forráðamaðurinn verið faðir, bróðir, eiginmaður eða sonur.