Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sjö borgarar féllu í lögregluárás á Haítí

epa06201145 A woman runs past a barricade during a demonstration in Port-au-Prince, Haiti, 12 September 2017. Haitian Police dispersed hundreds of demonstrators who protested against the approval of the National Budget by the Parliament, considering that
Róstusamt hefur verið á Haítí undanfarin misseri. Fátæktin er mikil, innviðir allir í ólestri og vanræksla og lögleysa hefur skapað jarðveg fyrir glæpagengi hvers konar. Mynd: EPA
Lögregla á Haítí hefur viðurkennt að minnst sjö óbreyttir borgarar hafi fallið í viðamiklum lögregluaðgerðum sem beindust gegn glæpagengjum í einu af fátækrahverfum höfuðborgarinnar Port-au-Prince. Í rauðabítið síðasta mánudag réðust sveitir þungvopnaðra lögreglumanna til atlögu í Martissant-hverfinu í vesturborginni. Aðgerðirnar eru liður í baráttunni við nokkur valdamikil og fjölmenn glæpasamtök sem hreiðrað hafa um sig í borginni. Tveir lögreglumenn voru einnig skotnir í þessari atlögu.

Alain August, yfirmaður lögreglunnar á Haíti, sagði í samtali við AFP-fréttastofuna að 31 hefði verið handtekinn í aðgerðunum á mánudag og að tvær innanhússrannsóknir væru hafnar innan raða lögreglunnar á því, hvað fór úrskeiðis.

Yfirstjórn lögregluliðs á vegum Sameinuðu þjóðanna, sem sent var til Haíti fyrir réttum mánuði til að vera þarlendum lögregluyfirvöldum til halds og trausts, hefur þegar sent frá sér yfirlýsingu þar sem blóðbaðið er fordæmt og kallað eftir óháðri og ítarlegri rannsókn á því sem gerðist. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV