Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sjaríalögum framfylgt frá og með deginum í dag

03.04.2019 - 06:44
epaselect epa07479464 A Muslim man walks inside the Sultan Omar Ali Saifuddien mosque to perform the sunset prayer in Bandar Seri Begawan, Brunei, 01 April 2019 (issued 02 April 2019). The Sultanate of Brunei will move towards the full implementation of Sharia law on 03 April 2019.  EPA-EFE/STR BRUNEI OUT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Sjaríalög ganga í gildi í soldánsveldinu Brúnei í dag, samkvæmt tilskipun soldánsins, hins því sem næst alvalda Hassanal Bolkiah. Soldáninn kallaði jafnframt eftir því í morgun í opinberu ávarpi, að hert yrði til muna á uppfræðslu landsmanna um allt sem lýtur að Kóraninum og íslömskum sið. Soldáninn minntist reyndar ekki á gildistöku sjaríalaganna í ávarpi sínu, en ríkisstjórn hans hafði áður tilkynnt þeim yrði framfylgt að fullu frá og með deginum í dag.

 

Soldáninn Bolkiah, sem verið hefur við völd í olíuríkinu Brúnei í 51 ár, sagði hins vegar að ríki hans væri bæði „réttlátt og hamingjusamt" og að hver sem þangað kæmi ætti von á dásamlegri reynslu í öruggu og friðsamlegu samfélagi.

Harðlega gagnrýnd lagasetning

Innleiðing sjaríalaganna hefur verið harðlega gagnrýnd víða um heim, jafnt af stjórnvöldum einstakra ríkja, einstaklingum og mannréttindasamtökum. Þau eru byggð á umdeildri bókstafstúlkun á Kóraninum og fleiri íslömskum trúarritum og er þeim hvergi framfylgt til fulls. Talibanar gerðu sitt ýtrasta til þess er þeir réðu ríkjum í Afganistan, en Sádi Arabía er það ríki sem kemst næst því að framfylgja sjaríalögum í dag. Refsilöggjöf margra annarra múslímaríkja eru undir mismiklum áhrifum sjaría-laganna, en þeim er óvíða framfylgt svo neinu nemi. 

Dauðarefsing fyrir margar sakir

Dauðarefsing er ekki óalgeng í sjaríalögum. Meðal þeirra sem gjalda þurfa fyrir glæpi sína með lífinu samkvæmt þeim, eru samkynhneigðir karlmenn sem uppvísir verða að því að stunda kynlíf og konur sem staðnar eru að framhjáhaldi, og skal grýta þau til dauða ef bókstafnum er fylgt til hins ýtrasta. Það er líka dauðasök að móðga spámanninn Múhameð og ræningjar og nauðgarar eiga einnig dauðan vísan. Þá mega þjófar eiga von á því að missa útlimi.

Vaxandi áhrif íslamista síðustu ár

Brunei er smáríki á eyjunni Borneó og var bresk nýlenda til ársins 1984. Íbúar eru litlu fleiri en Íslendingar, eða um 400.000. Bolkiah hefur verið soldán frá 1967 en byrjaði ekki að kalla eftir sjaríalögum fyrr en á tíunda áratugnum, og þá ekki af mikilli sannfæringu. Á öðrum áratug þessarar aldar fór hann svo aftur að gæla við hugmyndina um innleiðingu sjaríalaga. AFP-fréttastofan hefur eftir sérfræðingum að soldáninn vilji með þessu tryggja sér stuðning harðlínu-íslamista sem hafa verið að færa sig upp á skaftið síðustu árin, á sama tíma og olíuauður ríkisins hefur dregist saman. 

Sem fyrr segir hefur ríkisstjórn soldánsins boðað að lögunum verði framfylgt frá og með deginum í dag. Hvort og þá af hve mikilli hörku það verður gert mun tíminn einn leiða í ljós, en áratugir eru liðnir frá síðustu aftöku í þessu friðsæla smáríki, sem formlega nefnist Þjóðríkið Brúnei, heimkynni friðarins

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV