Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Sjálfstæðismenn samþykktu stjórnarsamstarfið

Bjarni Benediktsson
 Mynd: Ægir Þór Eysteinsson - RÚV
Flokksráð Sjálfstæðisflokksins samþykkti þátttöku flokksins í ríkisstjórn með Vinstri grænum og Framsóknarflokknum á fundi sínum sem lauk á sjöunda tímanum. Tillaga um stjórnarsamstarfið var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum.

Fundur flokksráðsins hófst klukkan hálf fimm og stóð í tæpar tvær klukkustundir. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, kynnti stjórnarsáttmálann fyrir flokksráðsmönnum. Í atkvæðagreiðslu var hann samþykktur með öllum greiddum atkvæðum, samkvæmt tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum.

Sjálfstæðisflokkurinn er fyrsti flokkurinn sem tekur formlega afstöðu til stjórnarsamstarfsins. Fundur í flokksráði Vinstri grænna hófst klukkan fimm og stendur eitthvað fram á kvöldið. Klukkan átta hefst svo miðstjórnarfundur hjá Framsóknarflokknum þar sem afstaða verður tekin til stjórnarsamstarfsins.

Hér að neðan má sjá viðtöl við formann og nokkra þingmenn og ráðherra Sjálfstæðisflokksins áður en fundurinn í Valhöll hófst.

Fréttin hefur verið uppfærð og lengd fundar leiðrétt.

Mynd: Ægir Þór Eysteinsson / RÚV
Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV