Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Sjálfstæðismenn og Framsókn með fundi

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins mættu til þingflokksfundar í Valhöll klukkan ellefu í dag. Þingflokkur Framsóknarflokksins ætlar að hefja fund í Alþingishúsinu klukkan eitt, á sama tíma og þingflokksfundi Vinstri-grænna frá í gær, um stjórnarmyndun með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, verður framhaldið.

Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að á þeim fundi yrði stjórnmálaviðhorfið rætt en tiltók það ekki nánar.

Þingflokkur Vinstri-grænna sat á fundi í fjóra klukkutíma í gær. Þar var rædd tillaga formanns um að hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn. Ekki náðist niðurstaða í gær og var því ákveðið að halda fundinum áfram í dag.

Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri-grænna, sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að hann vildi hefja formlegar viðræður. Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, sagði að það gæti gjörbreytt hinu pólitíska landslagi ef flokkarnir lengst til hægri og vinstri næðu saman um stjórnarmyndun, án mikilla innanflokksátaka. Það gæti styrkt báða flokka til framtíðar. Á móti kæmi að það myndi veikja Katrínu Jakobsdóttur ef flokkur hennar hafnaði því að fara í formlegar viðræður við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn, eins og hún hefur lagt til.