Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Sjálfstæðismenn karpa um hvalveiðar

22.07.2015 - 16:22
Mynd með færslu
 Mynd: Dirk Heidmaier - Wikimedia Commons
Stöðufærsla Elínar Hirst, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, um að hvalaskoðun sé mun mikilvægari atvinnugrein en hvalveiðar sem standi Íslendingum fyrir þrifum mælist heldur illa fyrir hjá í flokkssystkinum hennar - Jóni Gunnarssyni og Sigríði Andersen.

Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, nefndi það í viðtali við Skessuhorn í vikunni að Íslendingar ættu að draga úr hvalveiðum til þess að mæta gagnrýni á veiðarnar á alþjóðlegum vettvangi. Íslendingum hafi ekki verið boðið á suma fundi og ráðstefnur sem varði málefni hafsins.

Gunnar Bragi tók þetta mál einnig upp á fundi sínum og John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. 

Í sama streng tekur Elín Hirst á Facebook-síðu sinni. Hvalaskoðun sé „stórkostlega mikilvæg atvinnugrein fyrir íslenskt þjóðarbú. Mun mikilvægari en hvalveiðar sem standa okkur fyrir þrifum; því er nauðsynlegt að mæta og horfast í augu við.“ 

Hvalaskoðun á Húsavík. Stórkostlega mikilvæg atvinnugrein fyrir íslenskt þjóðarbú. Mun mikilvægari en hvalveiðar sem...

Posted by Elin Hirst on 21. júlí 2015

Jón Gunnarsson, flokksbróðir Elínar og formaður atvinnuveganefndar, er ekki par ánægður með þessi ummæli Elínar. Hann skrifar í athugasemd á Facebook-síðu þingmannsins. „ Í fyrsta lagi mín kæra, Elín Hirst, hvar eru dæmin um að hvalveiðar standi okkur fyrir þrifum ? Ég hef fylgst náið með þessu máli og hef ekki orðið var við að slíkar fullyrðingar standist nokkra skoðun.“

Hann segir að hvalaskoðun sé góð grein innan ferðaþjónustunnar og blómstri sem aldrei fyrr - það geri hvalveiðar líka. „Meirihluti veitingastaða er með hvalkjöt á matseðli og yfirleitt eru þetta meðal vinsælust rétta. Það er mikilvægt að halda staðreyndum til haga í allri umræðu.“

Og Sigríður Ásthildur Anderen er sömuleiðis á öndverðum meiði við Elínu. Hún tengir við frétt Vísir.is á Facebook-síðu sinni og spyr: „Hvar endar það eiginlega ef við ætlum að svipta menn í tilteknum atvinnugreinum sjálfu atvinnufrelsinu með þeim rökum að aðrar atvinnugreinar skili mögulega meiru í „þjóðarbúið“ eða vegna þess að einhverjir útlendingar hafi ranghugmyndir um atvinnugreinina?“

Sigríður segir atvinnufrelsi ekki vera eitthvað sem menni reikni út í excel heldur mannréttindi. 

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV