Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Sjálfstæðismenn fengu alla styrkina

09.03.2015 - 22:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki styrktu frambjóðendur Sjálfstæðisflokks um rúmlega 7 milljónir í prófkjörum fyrir síðustu Alþingiskosningar. Frambjóðendur annarra flokka fengu engan stuðning frá sjávarútvegsfyrirtækjum miðað við gögn Ríkisendurskoðunar og svör fyrirtækjanna við fyrirspurn fréttastofu.

Ríkisendurskoðun hefur skilað uppgjöri allra frambjóðenda í prófkjörum stjórnmálaflokkanna fyrir Alþingiskosningarnar 2013. 

Samkvæmt lögum um um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda, þá þurfa frambjóðendur að tilgreina öll fyrirtæki sem styðja þá í kosningabaráttunni. Sé heildarkostnaður frambjóðenda við framboðið undir 400 þúsund krónum, þarf viðkomandi hins vegar ekki að skila sundurliðuðu uppgjöri til Ríkisendurskoðunar. 

Fréttastofa hefur tekið saman upplýsingar um stuðning fyrirtækja í sjávarútvegi við einstaka frambjóðendur og sent þeim fyrirspurn um hvort þau hafi styrkt einhverja frambjóðendur umfram það sem kemur fram í gögnum Ríkisendurskoðunar. Svo er ekki miðað við svör fyrirtækjanna.

Ef litið er til fjárstuðnings fyrirtækja í sjávarútvegi til einstakra frambjóðenda fyrir prófkjör flokkanna, þá vörðu fyrirtækin rúmum 7 milljónum í að styðja einstaka frambjóðendur. Þessi upphæð fór öll til 17 frambjóðenda Sjálfstæðisflokksins, frambjóðendur annarra flokka fengu ekkert.

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra var sá frambjóðandi sem fékk mestan fjárstuðning sjávarútvegsfyrirtækja, rúmlega 1,3 milljónir króna, Elínborg Magnúsdóttir, sem ekki komst á þing, fékk rúma milljón og Jón Gunnarsson alþingismaður fékk slétta milljón.

Eskja var duglegust við að styðja einstaka frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins, hún lét þá fá samtals eina milljón króna, Brim studdi þá um 800.000 krónur og Þorbjörn sömuleiðis.

johannhlidar's picture
Jóhann Hlíðar Harðarson
Fréttastofa RÚV