Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sjálfstæðisflokkurinn stærstur í nýrri könnun

26.10.2017 - 06:09
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sjálfstæðisflokkurinn nýtur mests fylgis í nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins, Vísis og Stöðvar 2 sem birt er í Fréttablaðinu í dag. Rúm 24 prósent aðspurðra segjast ætla að kjósa hann, en fylgi Vinstri grænna er undir 20 prósentum.

Samfylkingin eykur við sig frá fyrri könnunum og hlýtur rúmlega 14 prósenta fylgi. Miðflokkurinn og Píratar koma næstir með um 9,5 prósenta fylgi, þá Viðreisn með 7,5 prósent og Framsókn 6,2 prósent. Björt framtíð mælist einungis með 1,9 prósent fylgi í könnuninni og þá er fylgi Flokks fólksins 4,4 prósent.

Könnun Fréttablaðsins að þessu sinni er frábrugðin fyrri könnunum að þvi leyti að úrtak hennar er tvöfalt stærra en áður. Haft var samband við rúmlega 2.500 manns þar til náðist í 1.602 dagana 23. og 24. október. 73,8 prósent þeirra sem náðist í tóku afstöðu til könnunarinnar. Vikmörk eru á bilinu 0,7 til 2,1 prósent. Spurt var: Hvaða lista myndir þú kjósa ef gengið yrði til kosninga í dag? Ef ekkert svar fékkst við því var spurt: Hvaða flokk er líklegast að þú myndir kjósa? Ef enn var ekki svarað var að lokum spurt: Er líklegra að þú myndir kjósa Sjálfstæðisflokkinn, eða einhvern annan flokk? 
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV