Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sjálfstæðisflokkurinn stærstur á Akureyri

Mynd með færslu
 Mynd: Sunna Valgerðardóttir - RÚV
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mest fylgi á Akureyri samkvæmt nýrri könnun, tæp 29%. Hann fengi fjóra bæjarfulltrúa og bætir við sig einum. Framsóknarflokkur tapar einum bæjarfulltrúa og Miðflokkurinn næði inn manni.

Sjálfstæðisflokkurinn, Samfylkingin og L-listi mælast stærst

Könnunin var unnin af Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri fyrir Vikudag og birtist á vef hans í morgun. Kannað var fylgi þeirra sjö flokka sem bjóða fram á Akureyri í komandi sveitarstjórnarkosningum. 

Sjálfstæðisflokkurinn mælist stærstur, með 28,6% fylgi og bætir þannig við sig einum bæjarfulltrúa en hann er nú með þrjá. Næststærstu flokkarnir eru Samfylkinginn og L-listinn, með 19,3% og 19% fylgi en munurinn er ekki tölfræðilega marktækur. Báðir flokkar halda sínum tveimur bæjarfulltrúum hvor. Vinstri græn eru með 10,7% fylgi og fá einn bæjarfulltrúa, eins og í síðustu kosningum. 

Miðflokkurinn næði inn manni

Framsóknarflokkurinn tapar fylgi samkvæmt könnuninni og mælast nú með 9,6% fylgi. Flokkurinn tapar því einum bæjarfulltrúa og fengi einn mann kjörinn. 

Miðflokkurinn, sem býður fram í fyrsta skipti, mælist með 7,8% fylgi og fengi einn bæjarfulltrúa. Píratar, sem einnig bjóða fram í fyrsta sinn í sveitarfélaginu, næðu ekki inn manni og mælast með 5,1%.

Sex nýir bæjarfulltrúar 

Samkvæmt könnuninni yrðu eftirfarandi 11 frambjóðendur bæjarfulltrúar á Akureyri:

Sjálfstæðisflokkur: Gunnar Gíslason, Eva Hrund Þórsdóttir, Þórhallur Jónsson og Lára Halldóra Eiríksdóttir.

Samfylking: Hilda Jana Gísladóttir og Dagbjört Elín Pálsdóttir.

L-listi: Halla Björk Reynisdóttir og Andri Teitsson

Vinstri græn: Sóley Björk Stefánsdóttir

Framsóknarflokkur: Guðmundur Baldvin Guðmundsson

Miðflokkur: Hlynur Jóhannsson

Samkvæmt þessu yrðu sex ný andlit í bæjarstjórn: Þórhallur og Lára í Sjálfstæðisflokki, Halla Björk og Andri í L-lista, Hilda Jana í Samfylkingu og Hlynur í Miðflokki. 

Nokkuð jafnt kynjahlutfall yrði í nýju bæjarstjórninni samkvæmt könnuninni, sex konur og fimm karlar, sem er eins og í dag. 

Tveggja flokka meirihluti mögulegur 

Eins og fram kemur í frétt Vikudags félli meirihluti bæjarstjórnar Akureyrar ef kosið yrði í dag. Hann er skipaður Framsóknarflokki, Samfylkingu og L-lista. 

Samkvæmt þessu gæti myndast tveggja flokka meirihluti Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar, eða Sjálfstæðisflokks og L-lista, þá með sex bæjarfulltrúa. 

Framsóknarflokkur tapar mestu fylgi

Framsóknarflokkurinn tapar mestu fylgi frá síðustu kosningum samkvæmt könnuninni, eða um 4,5 prósentustigum. L-listinn tapar rúmlega tveimur. Sjálfstæðisflokkur bætir mestu við sig, tæpum þremur prósentustigum. Samfylking bætir við sig tæpum tveimur, VG stendur í stað.  

Könnunin var gerð á tímabilinu 23. apríl til 4.maí og var svarhlutfall 62%. Haft var samband við rúmlega þúsund manns í tölvupósti og fengust 663 svör. Óákveðnir voru 243 og 24 vildu ekki svara. 20 manns sögðust ekki ætla að kjósa.

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV