Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Sjálfstæðisflokkur bætir við sig fylgi

01.10.2018 - 18:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn bæta við sig fylgi frá því fyrir mánuði. Fylgi Vinstri grænna og Framsóknarflokksins minnkar lítið eitt. Stuðningur við ríkisstjórnina er óbreyttur.

Ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók við völdum í nóvember í fyrra og hefur setið í tæpt ár. Stuðningur við hana mældist sjötíu og fjögur prósent í desember en hefur dalað talsvert síðan og mælist nú fimmtíu prósent í Þjóðarpúlsi Gallups, líkt og í síðasta mánuði.

Litlar breytingar eru á fylgi þeirra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi. Sjálfstæðisflokkurinn er enn þá stærstur. Tuttugu og fimm prósent aðspurðra styðja hann og hefur flokkurinn bætt við sig tæplega tveimur prósentustigum frá því fyrir mánuði. Samfylkingin stendur í stað með nítján prósenta fylgi. Píratar mælast með lítið eitt minni stuðning en fyrir mánuði og fer hann úr tólf og hálfu prósenti í ellefu og hálft. Viðreisn bætir við sig örlitlu fylgi og segjast ellefu prósent myndu kjósa flokkinn væru gengið að kjörborðinu nú. Fylgi Vinstri grænna minnkar úr tæpum tólf prósentum í rúm tíu prósent. Miðflokkurinn bætir hins vegar við sig fylgi, einu prósentustigi, og mælist með tæplega tíu prósenta fylgi. Framsóknarflokkurinn gefur eftir, fer úr rúmlega átta prósenta fylgi í tæp sjö. Flokkur fólksins stendur í stað.

Könnun Gallups var lögð fyrir tæplega fimm þúsund og fimm hundruð manns og fimmtíu og þrjú prósent þeirra tóku þátt í könnuninni.