Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sjálfstæðisbaráttusöngvar í nýjum hljóðritunum

Mynd með færslu
 Mynd:

Sjálfstæðisbaráttusöngvar í nýjum hljóðritunum

28.12.2018 - 13:56

Höfundar

Í tilefni af fullveldisafmælinu hafa verið gerðar nýjar upptökur af íslenskum sjálfstæðisbaráttusöngvum sem ekki hafa verið hljóðritaðir fyrr. Hljóðritanirnar verða frumfluttar 29. og 30. desember í þáttunum „Vökum, vökum! Vel er sofið“ sem fjalla um söngva í íslenskri sjálfstæðisbaráttu.

Söngvar úr sjálfstæðisbaráttunni

Árið 1995 gerði Una Margrét Jónsdóttir þættina „Vakið, vakið!“ um íslenska sjálfstæðisbaráttusöngva frá upphafi 19. aldar til 1918. Þættirnir voru endurfluttir 13. og 20 desember sl. og í tilefni af fullveldisafmælinu hefur Una Margrét gert tvo nýja þætti um sama efni: „Vökum ,vökum! Vel er sofið“. Fyrir þá hafa nýjar hljóðritanir hafa verið gerðar þar sem Fjölnir Ólafsson syngur nokkra sjálfstæðisbaráttusöngva, ýmist án undirleiks eða við píanóleik Matthildar Önnu Gísladóttur. Einnig verða í þáttum fluttar eldri hljóðritanir af þekktum söngvum eins og „Þú vorgyðja svífur“ og „Öxar við ána“.

Upprunalegt lag við „Eldgamla Ísafold“?

Fjölnir og Matthildur Anna flytja meðal annars ljóð Bjarna Thorarensen „Eldgamla Ísafold“ við annað lag en oftast heyrist, lag eftir Du Puy, en sumir telja að það hafi verið hið upprunalega lag við ljóðið. Í formála að ljóðmælum Bjarna Thorarensen frá 1935 segir Jón Helgason:

Virðist hugsanlegt að Bjarni hafi ort kvæðið við það lag, en ekki hitt er síðar hefur sigrað, einkum þegar þess er gætt að Du Puy kenndi honum söng.

Þjóðfundarsöngur Bólu-Hjálmars

Fjölnir syngur líka án undirleiks hið áhrifamikla ljóð Bólu-Hjálmars „Þjóðfundarsöngur 1851“ sem hefst þannig:

Aldin móðir eðalborna,

Ísland, konan heiðarlig,

ég í prýðifang þitt forna

fallast læt og kyssi þig,

skrípislæti skapanorna

skulu ei frá þér villa mig.

Þér á brjósti barn þitt liggur,

blóðfjaðrirnar sogið fær;

ég vil svarinn son þinn dyggur

samur vera í dag og gær;

en hver þér amar alls ótryggur,

eitraður visni niður í tær.

Ljóðið tengist þjóðfundinum 1851 þar sem sögð voru hin frægu orð „Vér mótmælum allir“. Þó að þetta ljóð Bólu-Hjálmars sé þekkt hefur það sjaldan heyrst sungið, en samkvæmt handriti skáldsins átti að syngja það „með kvöldvísnatón“. Í þáttunum er notað íslenskt þjóðlag við kvöldsálm.

Hljóðstigarolla og Þingvallafundur

Meðal annarra söngva sem hljóðritaðir hafa verið eru „Þó að margur upp og aftur“ úr handritinu Hljóðstigarollu frá 1847 og „Vér hlutum af feðrunum sigurfræg sverð“ sem sunginn var á Þingvallafundi 1895. Síðarnefnda ljóðið orti Einar Benediktsson. Þingvallafundir voru baráttufundir fyrir sjálfstæði Íslands, en fundurinn 1895 var fyrsti Þingvallafundurinn þar sem kona hélt ræðu. Það gerði Ólafía Jóhannsdóttir, frænka Einars.

Hvað vita börn og unglingar um sjálfstæðisbaráttuna?

Þegar barátta Íslendinga fyrir fullveldi er rifjuð upp vaknar sú spurning hvað ungmenni ársins 2018 viti um sjálfstæðisbaráttuna og söngva hennar. Í lok seinni þáttarins „Vökum, vökum! Vel er sofið“ verður spjallað við börn og unglinga sem valin eru af handahófi úti á götu og grafist fyrir um vitneskju þeirra og skoðanir á þessu efni. Er býsna fróðlegt að heyra hvað þau hafa um málið að segja.