Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Sjálfstæðisbaráttu Skota ekki lokið

17.09.2014 - 19:35
epa04402473 A elderly lady walks past a newspaper stand displaying a YES or NO advert referring to the Scottish referendum on independence in Edinburgh, Scotland, 16 September 2014. Polls are showing that the Yes and No camps are neck and neck in the
 Mynd:
Umræðan um sjálfstæði Skotlands verður ekki lögð til hliðar, þótt sambandssinnar vinni sigur á morgun, segir Alyson Bailes, sérfræðingur í málefnum Skotlands. Nýjar skoðanakannanir benda til þess að Skotland verði áfram hluti af breska konungsdæminu en afar mjótt verði á munum.

4,3 milljónir Skota, sextán ára og eldri, hafa atkvæðisrétt í þjóðaratkvæðagreiðslunni á morgun um sjálfstæði Skotlands. - Um það bil 97 prósent þeirra hafa skráð sig á kjörskrá. Búist er við metkjörsókn í atkvæðagreiðslunni sem gæti markað tímamót í sögu Skotlands. Nýjar skoðanakannanir gefa hins vegar tilefni til að ætla að sambandssinnar vinni nauman sigur.

„Ég held að sambandssinnar fái fleiri atkvæði, en að sigur þeirra verði afar naumur,“ segir Alyson Bailes. „Átta prósent kjósenda hafa enn ekki gert upp hug sinn. Ég giska á að meirihluti þeirra segi nei, þeir þori ekki að taka stökkið á síðustu stundu.“

Umræðan um sjálfstæði Skotlands hefur staðið í áratugi, og niðurstaða morgundagsins, mun ekki binda  enda á hana segir Bailes, þótt Skotar segi nei. „Og ef þjóðernissinnar fá yfir 40 prósent – þeir gætu jafnvel fengið yfir 45 prósent – þá verður ekki hægt að líta framhjá þeim árangri. Það er margt sem þeir geta fengið áorkað á næstu 5-10 árum, bæði heimafyrir og annars staðar. Þeir geta aukið enn frekar á þau réttindi sem þeir hafa áunnið sér nú þegar,“ segir hún.

En hvernig fer þá fyrir Skoska þjóðarflokknum, fari svo að sambandssinnar sigri? Hann verður áfram við völd segir Bailes, ekki síst vegna þess að bresk stjórnvöld hafa nú þegar boðið Skotum aukin völd yfir eigin málefnum.

„Þjóðernissinnar geta bent á að þeir hafi háð heiðarlega kosningabaráttu, tekist að ýta við stjórnarherrunum í Lundúnum og fengið aukin völd í rauninni fyrir ekki neitt,“ segir Alyson Bailes. „Það séu þeir, sjálfstæðissinnarnir, sem hafi notað völd Skotlands þjóðinni til hagsbóta. Að þeir stýri þjóðinni áfram næstu ár með þessi nýfengnu völd og gefi ekki upp vonina um sjálfstæði þegar fram í sækir.“