Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Sjálfsskaðafaraldur

17.10.2017 - 17:54
Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia/CreativeCommons
Stelpur skera sig og taka ofskammta af lyfjum en strákarnir eru meira í hörðum sjálfsskaða segir Vilborg G Guðnadóttir, geðhjúkrunarfræðingur á göngudeild Barna- og unglingageðdeildarinnar. Sjálfsskaði hjá ungum stúlkum hefur aukist svo mikð að hægt er að tala um faraldur.

Ráðstefna Geðhjálpar um geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni á Íslandi var á Grand Hóteli í dag. Fullt var út úr dyrum og komust færri að en vildu og fólk var á biðlista. Vilborg talaði um sjálfsskaða á ráðstefnuninni en hún hefur starfað við ráðgjöf á þessu sviði í 20 ár. „Og að það sé biðlisti eftir að komast að það er nokkuð sem ég hef bara ekki upplifað áður.“

Rannsóknir og greining gerði rannsókn sem náði til allra framhaldsskólanema hér á landi. Niðurstöðurnar sýna að sjálfsskaði er vaxandi vandi, ekki síst meðal stúlkna. Tæp þrettán prósent þeirra höfðu skaðað sig fimm sinnum eða oftar á síðasta ári. Þremur árum áður, 2013 höfðu 7,3 prósent stelpna skaðað sig fimm sinnum eða oftar og 4,7 prósent árið 2004.

Árið 2016 sköðuðu 3,7 prósent stráka sig fimm sinnum eða oftar, 3,9 prósent árið 2013 og 2,8 prósent árið 2004

Vilborg segir að stelpurnar séu meira að skaða sig heldur en strákarnir.  „Strákarnir eru meira í hörðum sjálfsskaða að kýla eða herða að hálsi. Stelpurnar eru aðallega í að skera sig og taka ofskammt lyfja.“
 
Krakkarnir eru flestir á aldrinum 13-18 ára. Árið 2011 töluðu Bretar um að sjálfsskaði væri orðinn faraldur. „Þeir eru með sambærilegar tölur og við það gefur auga leið að þetta hlýtur að vera faraldur hjá okkur líka.“

Margar ástæður geta verið fyrir þessari þróun, en er hægt að segja að þetta sé í tísku?  Að hluta til já það eru smitáhrif í unglingahópum. Þar kemur netið sterkt inn og samskiptamiðlarnir þar og þetta gífurlega áreiti, sem þau jafningjar, verða fyrir hvert af öðru það hefur áhrif.“

Vilborg segir að ekki sé hlúð nægjanlega að fjölskyldum. Oftast er brugðist við þegar vandi er orðinn mikill. „Það sem á að gera fyrst og fremst er það að hlúa að fjölskyldum og skapa þeim góð skilyrði til þess að hlúa að börnunum sínum.“
 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV