Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Sjálfsbjörg opnar Þekkingarmiðstöð

08.06.2012 - 17:12
Mynd með færslu
 Mynd:
„Aðgengi að upplýsingum" var yfirskrift 36. landssambandsþings Sjálfsbjargar sem haldið var í dag og um leið var Þekkingarmiðstöð Sjálfsbjargar opnuð í Hátúni 12.

Hlutverk Þekkingarmiðstöðvarinnar er að safna og miðla hagnýtum upplýsingum sem gagnast fötluðu fólki. Sem dæmi um það eru upplýsingar um réttindi fatlaðra einstaklinga, aðgengi og aðstæður á ýmsum stöðum og hentug hjálpartæki. Þjónustan er ekki eingöngu ætluð fötluðu fólki heldur einnig aðstandendum, vinum og vandamönnum, fyrirtækjum, stofnunum, hinum ýmsu fagaðilum og öðrum sem kunna að þurfa á upplýsingum um málefni fatlaðra að halda. 

Guðbjörg Kristín Eiríksdóttir, forstöðumaður Þekkingarmiðstöðvarinnar sagði að miðstöðinni sé ætlað að safna og miðla upplýsingum um málefni fatlaðra á hlutlausan hátt og upplýsingarnar sem miðstöðin veitir gagnist ekki aðeins þeim sem eru fatlaðir til langframa. Flestir þurfi einhverntímann á ævinni að glíma við skammtímafötlun. Þannig nýtist vefurinn einnig þeim sem fótbrotna og vantar upplýsingar um hvernig gott er að bera sig að því að fara á hækjum upp stiga eða þeim sem eiga erfitt með að beygja sig og vantar praktíst garðáhöld. 

Hægt er að sækja þjónustuna á Þekkingarmiðstöðinni sjálfri í Sjálfsbjargarhúsinu Hátúni 12, í síma 550 0118, á vefslóðinni www.thekkingarmidstod.is og í netfangið [email protected]. Þekkingarmiðstöð Sjálfsbjargar er opin virka daga á milli kl. 10 og 16.